Covid-19 veldur verðlækkun á sjávarafurðum

225
Deila:

„Verð íslenskra sjávarafurða mælt í erlendri mynt hefur verið í hækkunarfasa undanfarin misseri. Það breyttist nú á öðrum ársfjórðungi þegar verðið lækkaði um 5% milli fyrsta og annars ársfjórðungs. Síðast lækkaði verðið milli annars og þriðja ársfjórðungs árið 2017. Þetta er því fyrsta verðlækkunin eftir samfellda verðhækkun 10 ársfjórðunga í röð.“

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Þar segir ennfremur:

„Verð sjávarafurða er nú ögn hærra en það var á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Covid-19-faraldurinn hefur haft töluverð áhrif á verð og sölu á íslenskum sjávarafurðum erlendis. Lokun veitingastaða hafði mikil áhrif á eftirspurn eftir ferskum fiski en útflutningsverð á ferskum þorski er umtalsvert hærra en á frystum eða söltuðum. Einnig hafa orðið tafir á greiðslum og afpantanir á sjávarafurðum. Kaupendur hafa jafnframt þrýst á um verðlækkanir. Þessu til viðbótar hefur mun minni flugumferð haft áhrif á flutning á ferskum fiski á erlenda markaði. Jafnvel þó að búið sé að opna mikið af veitingastöðum í Evrópu á ný gæti reynst erfiðara en áður að koma ferskum fiski til þeirra á meðan tíðni flugs og fjöldi áfangastaða er jafn lítill og raun ber vitni.

Heimsmarkaðsverð á kjöti og matvælum lækkar einnig

Þessi verðlækkun á sjávarafurðum er þó ekki einskorðuð við fisk frá Íslandi. Þannig hefur heimsmarkaðsverð á kjöti og matvælum almennt einnig lækkað töluvert milli fyrsta og annars ársfjórðungs. Heimsmarkaðsverð á kjöti lækkaði um 5,5% en matvæli lækkuðu um 6,9%. Lækkunin á kjöti milli ársfjórðunga er sú mesta sem mælst hefur síðan á fjórða ársfjórðungi 2015. Lækkunin á matvælum er sú mesta síðan á fyrsta ársfjórðungi 2015. Það er því ljóst að Covid-19-faraldurinn er ekki einungis að koma illa niður á verði íslenskra sjávarafurða heldur á verði matvæla almennt.

Verðlækkun bæði á uppsjávarfiski og botnfiski

Lækkun varð á bæði verði bæði uppsjávarfisks annars vegar og botnfisks og flatfisks hins vegar. Uppsjávarfiskur lækkaði um 1,1% milli fyrsta og annars fjórðungs og botnfiskur og flatfiskur lækkuðu um 6,1% milli sömu tímabila. Í botnfiski var einna mesta lækkunin í ferskum fiski sem lækkaði um 10%. Sjófrystur botnfiskur lækkaði um 7,7% og saltaður um 5,8%.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða dróst saman á öðrum fjórðungi

Útflutningur á sjávarafurðum nam 61 ma.kr. á öðrum ársfjórðungi borið saman við 68,7 ma.kr. á sama tímabili í fyrra, en hvort tveggja er á föstu gengi. Samdrátturinn nam 7,8 mö.kr., eða 11,3%. Mesti samdrátturinn var í útflutningsverðmæti loðnu sem lækkaði um 2,7 ma.kr., eða um 74%, milli ára. Rétt eins og í fyrra byggir útflutningur á loðnu á birgðum þar sem ekkert hefur veiðst af loðnu í ár og í fyrra. Í tonnum talið dróst útflutningur loðnu saman um 16%.

Mun meiri samdráttur í útflutningsverðmæti en í magni bendir til þess að samsetningin á útflutningnum hafi tekið breytingum. Þannig kann vægi hrogna í heildarþyngd útflutnings að hafa dregist saman milli ára. Útflutningur á makríl dróst saman um 2 ma.kr., eða tæplega helming. Það skýrist fyrst og fremst af minni útflutningi í tonnum talið.

Útflutningur á ufsa dróst saman um 1,7 ma.kr. og lækkaði útflutningsverðmætið um tæplega 40,5%. Mun minni samdráttur var í útflutningi ufsa í tonnum talið, eða 18,4%, og bendir þetta til verðlækkunar á ufsaafurðum milli ára.

Mesta verðmætaaukningin var í útflutningi á grálúðu. Útflutningur á henni jókst um 1 ma.kr., eða 57,4%. Útflutningsverðmæti á síld jókst um 600 m.kr., eða 68,9%. Útflutningsverðmæti á þorski jókst um 300 m.kr., eða 9,4%.“

Deila: