Ætlar að beita sér fyrir strandveiðum í september

134
Deila:

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, hyggst beita sér fyrir því að strandveiðar verði leyfðar í september. Ef lagabreytingu þurfi til segist hún treysta á jákvæð viðbrögð á Alþingi. Þetta kemur fram á ruv.is

Strandveiðar voru stöðvaðar 20. ágúst þegar strandveiðiflotinn hafði veitt þær aflaheimildir sem ætlaðar voru til veiðanna í ár. Þetta var tæpum tveimur vikum fyrir áætlaðan tíma og olli mikilli reiði meðal sjómanna. Framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda hefur sagt nauðsynlegt að grípa til aðgerða þegar Alþingi kemur saman nú í vikunni.

Telur möguleika innan kerfis að leyfa strandveiðar 

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, á von á að þetta verði rætt í nefndinni. „Minn vilji hefur staðið til þess og ég hef gert ráðherra grein fyrir því að það sé möguleiki á sveigjanleika í kerfinu, þessu 5,3 prósentum, til þess að opna á strandveiðar í september.“

Treystir á jákvæð viðbrögð ef þarf að breyta lögum

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, hafði þegar bætt við aflaheimildum áður en veiðunum lauk. Hann sagðist hins vegar ekki hafa lagalegar heimildir til frekari aukningar. „Ef það þarf lagabreytingu til þá treysti ég því að þingið yrði jákvætt í þeim efnum að skoða möguleika á því, núna á þessum þingstubbi í ágúst,“ segir Lilja Rafney.

Mikilvægt að styðja við öll störf

Og hún segir mikilvægt, í þeim aðstæðum sem nú eru í þjóðfélaginu, að styðja við strandveiðar og efla störfin sem þar eru. „Það má búast við því að þeir aðilar sem hætti strandveiðum núna, fari á atvinnuleysisbætur. Okkur veitir ekkert af því að reyna að halda öllum störfum í virkni eins og hægt er.“

 

Deila: