Börkur með mest af makríl

127
Deila:

Senn líður að lokum makrílvertíðar. Aflinn nú er orðinn 127.000 tonn samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Í fyrra varð aflinn 125.500 tonn, en það var lakasta makrílvertíðin allan þennan áratug. Kvótinn náðist ekki í fyrra og næst líklega ekki nú.

Það sem einkennir vertíðina nú er, að makríllinn gekk ekki nema í litlum mæli upp að landinu og vestur með því. Því varð ekkert úr makrílveiði smábáta á handfæri í sumar og stóru skipin hafa þurft að sækja hann austur í Síldarsmuguna. Þangað er langt að sækja og hafa útgerðir, eins og Síldarvinnslan, með fleiri en eitt skip, sameinast um að flytja aflann í land. Þannig hefur eitt skip tekið afla af allt að þremur skipum um borð og farið með fullfermi í land, en hin halda áfram veiðum. Það skip sem næst er því að fylla sig fær svo frá öðrum, sé þess þörf og heldur í land.

Nú eru fimm skip komin með meira en 8.000 tonn samkvæmt aflastöðulistanum. Þar trónir Börkur NK á toppnum með 9.700 tonn og næstur er Huginn VE með 9.400 tonn. Næstu skip eru Venus NS með 8.800 tonn, Margrét EA með 8.800 tonn og Beitir með 8.600 tonn.

Deila: