Minna flutt utan frá Noregi í ágúst
Útflutningur Norðmanna á sjávarafurðum féll um 14% í nýliðnum ágústmánuði mælt í verðmætum´miðað við sama mánuði í fyrra. Verðmætið nú var 7,3 milljarðar norskra króna sem svarar til 114 milljarða íslenskra króna. Mismunurinn er 18,7 milljarðar íslenskra króna. Það sem af er ári hefur útflutningur Norðmanna á sjávarafurðum skilað þeim ríflega 1.000 milljörðum íslenskra króna. Það er 1% meira en á sama tíma í fyrra.
Samdrátturinn skýrist af minni eftirspurn og styrkara gengi norsku krónunnar. Samdrátturinn í ágúst er mestur í laxi og þorski, 11,7 milljarðar í laxinum og 3,7 milljarðar í þorski. Þessu veldur breytt hegðun neytenda yfir sumarleyfistímann og minni velta á veitingahúsum.
Mest af sjávarafurðunum í ágúst fóru til Póllands, Danmerkur og Frakklands. Mikill samdráttur varð á útflutningi til Kína. Á síðasta ári var mestur vöxtur í sölu sjávarafurða til Kína, en nú hefur markaðurinn þar þyngst verulega. Sem dæmi um það féll útflutningur á laxi þangað um 69% í ágúst nú miðað við sama mánuð í fyrra. Nú í ágúst fóru 7.600 tonn af norskum sjávarafurðum til Kína. Heildarverðmæti var 3,3 milljarðar íslenskra króna. Magnið féll um 43% og verðmætið um 54%.