Veiðum á grásleppu verði stjórnað með aflamarki

367
Deila:

Aflamarksstjórn við veiðar á grásleppu verður tekin upp, verði frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um fiskveiðistjórnun að lögum. Frumvarpið er nú til umsagnar í samráðsgátt Alþingis.  Auk þess er lagt til að heimilað verði að úthluta aflahlutdeild til veiða á staðbundnum nytjastofnum hryggleysingja, þannig að sérstakt aflamark komi fyrir veiðisvæði. Einnig að sandkoli verði kvótasettur fyrir öll Íslandsmið.

Í greinargerð með frumvarpinu segir meðal annars svo um veiðistjórnun á grásleppu: „Verði frumvarpið að lögum verður tekin upp aflamarksstjórn við veiðar á grásleppu. Til þessa þarf breytingar á bæði lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, þar sem eru sérreglur um núverandi veiðistjórn, sem og lögum um stjórn fiskveiða, hvað snertir framkvæmd framkvæmd úthlutunar og hámarksaflahlutdeild. Með því að taka upp aflamarksstjórn við grásleppuveiðar mun ekki vera þörf á að hafa reglur um samfellda veiðidaga.

Í umsögn um greinargerð starfshóps um tilhögun veiðistjórnar grásleppuveiða benti Hafrannsóknastofnun á að engin fiskifræðileg rök væru fyrir því að viðhalda svæðaskiptingu í grásleppuveiðum, enda hafi skip ekki mikið verið að flytja sig milli svæða. Þó benti stofnunin á að æskilegt væri að ráðherra yrði heimilt að grípa til ráðstafana ef aðstæður kölluðu á aukna stýringu. Því er lagt til með 1. gr. frumvarpsins að heimilað verði að ákveða staðbundin veiðisvæði við grásleppuveiðar, þannig að aðeins geti þar stundað veiðar bátar sem skráðir séu frá byggðarlegi eða verstöð við hlutaðeigandi veiðisvæði og útgerð.

Þá er einnig mögulegt að hagnýta ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelginni til að leyfisbinda veiðar á grásleppu á tilteknum svæðum, þar sem aðeins takmarkaður fjöldi skipa hefði leyfi til veiðanna, sem eftir sem áður væru samkvæmt aflamarki. Er stjórnvöldum því mögulegt að setja nánari reglur um veiðarnar, verði til þess tilefni, þótt úthlutað hafi verið aflmarki til þeirra. Í 1. mgr. 9. gr. laganna er mælt fyrir um að við úthlutun aflahlutdeildar á tegund sem ekki hefur áður verið bundin ákvæðum um leyfðan heildarafla skuli úthlutað á grundvelli aflareynslu síðustu þriggja veiðitímabila. Í frumvarpinu er lagt til að sett verði bráðabirgðaákvæði sem mælir fyrir um aðra aðferð við mat á veiðireynslu og úthlutun aflahlutdeildar í grásleppu.

Í ákvæðinu er lagt til að veiðireynsla verði metin út frá þremur bestu veiðitímabilum í sex ár, frá og með árinu 2013 til og með árinu 2018. Vertíðir grásleppuveiða standa yfir í stuttan tíma og frátafir á einni vertíð geta því haft mikið að segja varðandi veiðireynslu fiskiskips það ár. Þá eru aflabrögð misjöfn milli ára og eftir svæðum. Sá mismunur jafnast út með lengra viðmiðunartímabili. Því er málefnalegt að heimila að litið sé til svo langs viðmiðunartíma. Þá er lagt til að aflahlutdeild skuli úthlutað á grundvelli veiðireynslu leyfisins sem skráð er á skipið en ekki á grundvelli veiðireynslu skips eins og annars er mælt fyrir um í 1. mgr. 9. gr. laganna.

Þegar selt hefur verið grásleppuveiðileyfi af skipi eru líkur til að útgerð þess stundi ekki lengur grásleppuveiði. Ef miðað væri við veiðireynslu fiskiskips mundi það geta leitt til þess að þeir sem veiðarnar stunda og hafa nýlega aflað sér leyfis fengju úthlutað lítilli aflahlutdeild. Er þessi tillaga gerð samkvæmt tillögu greinds starfshóps. Með frumvarpinu er lagt til að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila, megi aldrei nema hærra hlutfalli af heildaraflahlutdeild í grásleppu en 2%. Lagt er til að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila megi ekki nema hærra hlutfalli en 2%.

Sé miðað við aflahæsta skips hverrar vertíðar sl. sex vertíðir, er hægt að reikna meðal hámarksaflahlutdeild þessara vertíða upp á 1,2% og er meðaltals hæsti afli á bát um 60 tonn. Meðaldagafjöldi vertíðanna 2013-2018 var 36 dagar. Verði frumvarpið að lögum er því svigrúm fyrir þá sem stunda grásleppuveiðar að auka nokkuð heimildir sínar. Hafa ber í huga í þessu sambandi að dæmi eru um að menn reki 2-3 báta og því segir hámarksafli á bát ekki endilega til um hver sé hámarksafli sé á útgerð. Með hliðsjón af því sem segir í almennum athugasemdum má ætla að ákveðin réttlæting sé fyrir því að gefa aðilum möguleika á að vaxa og þá með veiðum á einum bát. Út frá sömu forsendum sem hér að framan eru raktar má ætla að 60 daga úthald aflahæsta bátsins þyrfti um 2% aflahlutdeild.“

Deila: