Fimm álar veiddir síðustu fimm ár
Álaveiðar á Íslandi heyra nú nánast sögunni til. Á síðustu 5 árum hafa aðeins 15 ára veiðst samkvæmt gögnum Hafrannsóknastofnun. Beinar veiðar á ál eru bannaðar, en heimilt er að gefa út leyfi til álaveiða til eigin nota. Ekkert leyfi var gefið út í ár en eitt í fyrra. Alþjóða hafrannsóknaráðið hefur lagt til að álaveiðar yrðu bannaðar við í Norður-Atlantshafi, enda er stofninn að hruni kominn.
Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um álaveiðar og rannsóknar. Í svarinu segir einnig svo:
„Hafrannsóknastofnun hefur ekki gert rannsóknir á ál frá því að lögum um lax- og silungsveiði var breytt á 148. löggjafarþingi og er ekki kunnugt um aðra aðila sem hafa stundað rannsóknir á ál á síðustu árum.
Talið er að Evrópuállinn (Anguilla anguilla) sé einn stofn og að stofnstærð hans sé nú um 10% af þeirri stofnstærð sem var á sjötta áratug síðustu aldar. Áll hefur verið á lista Convention on International Trade in Endangered Species (CITES) frá 2009 yfir tegundir í útrýmingarhættu og fylgir því bann við inn- og útflutningi af efnahagssvæðinu auk þess sem upprunavottorða er krafist varðandi sölu afurða.
Með setningu reglugerðar um friðun áls með undanþágum fyrir veiðiréttarhafa er nýting og ábyrgð á höndum þeirra. Væntanlega fást frekari upplýsingar um ástundun, afla og útbreiðslu ála sem síðan getur orðið mikilvæg undirstaða þess að hægt sé að rannsaka vistfræði og veiðiþol stofnsins enn frekar. Með reglugerðinni er komið til móts við tilmæli alþjóðastofnana til verndar álastofnum á meðan það ástand varir sem nú er varðandi minnkandi stofnstærð og veiðiþol í anda varúðarreglu og í samræmi við ábyrga stjórn fiskveiða.“
Staða álastofnsins í Evrópu er afar slæm og hefur verið svo nokkuð lengi. Það er niðurstaða stofnstærðarmats Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES). Nýliðun gleráls í löndum Norður-Evrópu er aðeins 1,6% að meðaltalinu á árunum 1960 til 1979 og í löndum Suður-Evrópu er hlutfallið 8,7%.
Samkvæmt skýrslu ICES kemur fram að þættir af mannavöldum geti leitt til fækkunar kynþroska álum, og þá ætti að takmarka. Sem dæmi um það má nefna veiðar, virkjanir, dælustöðvar og mengun.
Upplýsingar um álaveiðar hafa verið ófullnægjandi til langs tíma og fiskifræðinga skortir þekkingu á hinu dularfulla lífsferli álsins.
Erfitt er að segja til um hvernig hinar ólíku athafnir mannsins hafa neikvæð áhrif á vöxt og viðgang álastofnsins, en fyrir liggur að nýliðunin er mjög léleg.
Állinn hefur verið friðaður í Noregi síðan 2007 og hér eru veiðar litlar sem engar. Állinn hér er hluti af evrópskum stofni sem syndir suður í Þanghafið til að hrygna. Það gerir állinn þegar hann er á aldrinum 13 til 30 ára gamall. Þannig koma breytingar á nýliðun álsins ekki fram í stofnstærð fyrr en eftir langan tíma. Állinn drepst eftir hrygningu.
Þar sem stofninn er sameiginlegur mörgum þjóðum eru bæði veiðar og upplýsingar um þær mjög mismunandi. Þá er talið að töluvert sé um ólöglegar álaveiðar.
Á árinu 2017 hefur ICES í fyrsta sinn sent út beiðni til aðildarlanda í Evrópu um fyrirliggjandi upplýsingar um álaveiði og nýliðun, seiðasleppingar og álaeldi.