Hafnarmál og faraldur í kastljósi Sóknarfæris

180
Deila:

Íslenskum sjávarútvegur hefur gengið bærilega að fóta á tímum Corona-faraldursins. Útflutningur sjávarafurða hefur skilað heldur meiru en í fyrra. Vel hefur gengi að sníða framleiðsluna að breyttum aðstæðum á mörkuðunum erlendis. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Sóknarfæris. Í blaðinu er rætt við forystumenn í sjávarútvegi og fjallað um hafnarmál. Ritstjóri Sóknarfæris fer yfir málin í leiðara blaðsins:

„Hagtölur sýna ívið betri árangur í sölu sjávarafurða á fyrri hluta ársins en við mátti búast, sem víst er mikið gleðiefni. Engu að síður er það hin mikla óvissa sem er greininni þung í skauti. Það sem er í dag getur gjörbreyst á morgun. Við lifum á tímum óvissunnar. En það er líka í aðstæðum sem þessum sem mikil sköpun og þróun getur orðið. Okkur er kippt niður á jörðina, flest er með öðrum hætti, við þurfum að finna nýjar leiðir til að vinna hlutina, þarfirnar geta breyst, sumt kemur aftur sem var fyrir Covid-19, annað ekki. Í ölduróti faraldursins geta opnast ný tækifæri í sjávarútvegi, líkt og á öllum öðrum sviðum. Fyrrnefndar hagtölur sýna að íslenskum sjávarútvegi hefur tekist býsna vel að halda sjó á mörkuðum erlendis í þessum hræringum öllum, rétt eins og hann hefur áður sýnt þegar harðnar á dalnum. Það sást í hruninu og með sama hætti þegar Rússlandsmarkaður lokaðist fyrir sölu uppsjávarafurða á sínum tíma. Sveigjanleiki og nýjungagirni hafa verið ómetanlegir drifkraftar í sjávarútvegi síðustu áratugi og eru dýrmætir einmitt núna.

Í þessari útgáfu Sóknarfæris er kastljósi umfram annað beint að höfnum og skipaþjónustu og fjölbreytt umfjöllunarefni um þá málaflokka er að finna í blaðinu. Nýsköpun hvert sem litið er og áhugavert að sjá þá miklu gerjun sem nú er að eiga sér stað í rafvæðingu hafna sem þýðir að skip geta í auknum mæli nýtt sér landtengingar við raforkukerfi í stað þess að brenna olíu með tilheyrandi kostnaði og mengun í landlegum. Hafnir og útgerðir láta ekki sitt eftir liggja að leggjast á árar í umhverfismálum og stíga skrefin til grænni framtíðar.“

Blaðið er gefið út af Ritformi og er því dreift til fyrirtækja um allt land. Blaðið má ennfremur lesa á heimasíðu útgáfunnar á slóðinni, https://ritform.is/wp-content/uploads/2020/10/soknarfaeri_SJOR_4_tbl_okt_2020_100.pdf

 

Deila: