Framleiða milljónir matarskammta á ári

Myndatextar:
Sigurjón Gísli Jónsson framkvæmdastjóri Norðanfisks segir að síðasta ár hafi verið það besta í sögu félagsins.
Mikið er lagt upp úr vöruþróun og hafa reyndir matreiðslumeistarar verið fengnir til liðs við við fyrirtækið í þeim efnum.
Norðanfiskur er nú að koma með nýjung í neytendapakkningum í verslanir Bónus. Það eru tilbúnir réttir með meðlæti í baka sem þolir hitun í ofni.
Norðanfiskur á Akranesi er í sóknarhug og unnið er að vöruþróun af ýmsu tagi. Tilbúnir fiskréttir eru að koma í verslanir Bónus og sótt er fram á mörkuðum fyrir stóreldhús og veitingageirann. Fyrirtækið framleiðir milljónir matarskammta á hverju ári og síðasta ár var það besta í sögu félagsins.
Nýjar áherslur með nýjum eigendum
Blandaður hópur úr viðskipalífinu og sjávarútveginum keypti félagið af Brim hf. í sumar ásamt framkvæmdastjóranum Sigurjóni Gísla Jónssyni. „Þessi hópur hefur mikla ástríðu fyrir því að efla starfsemi félagsins og styrkja stöðu þess á Akranesi og á markaði. Þetta er jákvæður og skemmtilegur hópur sem kemur þarna inn og er þegar farinn að blása miklu lífi í endurskipulagningu á félaginu og styðja við rekstur þess með hugmyndavinnu og stefnumótun. Með nýjum eigendum koma nýjar áherslur og við höfum þegar lagt mikla áherslu á vöruþróun og að sækja fram í vörum sem eru nýjar,“ segir Sigurjón Gísli og heldur áfram:

Sigurjón Gísli Jónsson framkvæmdastjóri Norðanfisks segir að síðasta ár hafi verið það besta í sögu félagsins.
Framleitt fyrir innanlandsmarkað
„Við erum að framleiða sjávarfang fyrir innanlands markað og erum með mjög breitt vöruúrval. Við erum að framleiða vörur fyrir mismunandi þætti markaðsins. Við framleiðum mikið til stóreldhúsa, svo sem mötuneyta, stofnana og skóla. Við erum þar með úrval vara og erum stórtæk í framleiðslu á laxi, bjóðum bæði upp á ferskan og frosinn lax, reyktan og grafinn líka. Við erum einnig í áframvinnslu á hvítfiski, þar sem við framleiðum hjúpaðan fisk í ýmsum útfærslum, til dæmis raspi, „kentucky“, orlydeigi og tempura. Það eru vörur sem eiga mjög vel við þennan stóreldhúsamarkað, þar sem þetta eru fyrsta flokks fiskvörur sem eru tilbúnar til eldunar. Þannig minnkar vinnan hjá matreiðslumönnum í eldhúsunum, þar sem vörurnar eru klárar í ofn eða djúpsteikingu eftir því sem við á. Þar erum við með þorsk, ýsu, og fleiri tegundir í mörgum mismunandi útfærslum á hjúpi.“
Norðanfiskur selur einnig mikið inn á veitingahúsamarkaðinn, hótel, flugrekstur og slíkt. Fyrir utan hefðbundið íslenskt sjávarfang er þar einnig í boði breytt úrval af frosnu innfluttu sjávarfangi eins og humri, risarækju, hörpudiski, túnfiski ásamt sjávarfangi fyrir sushigerð. Í heildina er Norðanfiskur með um 300 vöruflokka þannig að í sjávarfanginu getur félagið uppfyllt allar óskir viðskiptavina sinna fyrir nútíma matargerð og þróun matseðla.

Norðanfiskur er nú að koma með nýjung í neytendapakkningum í verslanir Bónus. Það eru tilbúnir réttir með meðlæti í baka sem þolir hitun í ofni.
Tilbúnir fiskréttir í Bónus „fiskur í matinn“
„Þriðji þátturinn er svo neytendamarkaðurinn og þar höfum við verið í nánu samstarfi við Bónus, þar sem þverskurður okkar voru framboðs fæst í neytendapakkningum. Þar er bæði ferskt og frosið íslenskt sjávarfang svo sem lax, þorskur, ýsa, humar, brauðaður fiskur, ofl. sem og innflutt og framandi sjávarfang þ.e. risarækjur, hörpudiskur, krabbakjöt ofl. Við erum svo að færa okkur enn frekar upp á skaftið í ferskum fiski og erum þar með vörulínu sem heitir „Fiskur í matinn“.
„Fiskur í matinn“ er vörulína sem fór af stað hjá okkur árið 2017 og við höfum ákveðið að leggja fleiri lóð á þessar vogarskálar og koma með fleiri tegundir af ferskum fiski í neytendapakkningum og ganga enn lengra og bjóða upp á tilbúna fiskrétti; „Fiskréttir í matinn“ tilbúna í ofninn. Þessir réttir eru komnir í verslanir Bónus og verður úrval fiskrétta í boði. Þeir eru í pakkningum sem eru bæði umhverfisvænar og tilbúnar í ofninn. Þar komum við til móts við nútímafjölskylduna, sem getur þá gripið með sér tilbúinn rétt í versluninni og þarf ekki að verja miklum tíma í matreiðslu heima. Við munum bjóða viðskiptavinum upp á fjölda fiskrétta í mismunandi útfærslum með sósu og fersku grænmeti ásamt fleiru góðgæti, þannig að það þarf ekki einu sinni að hugsa fyrir meðlæti. Það er bara allt klárt í ofninn.
Síðasta ár það besta
Reksturinn hjá Norðanfiski hefur gengið mjög vel, en auðvitað hefur Covid sett strik í reikninginn hjá okkur eins og öðrum. Síðasta ár, þ.e. 2019 var besta árið í sögu félagsins. Við slógum þá öll fyrri sölumet og rekstur fyrirtækisins góður. Í raun hefur rekstur Norðanfisks alltaf gengið vel. Við erum þekkt og rótgróið vörumerki um allt land, þekkt fyrir gæði og góða þjónustu. Veltan á síðasta ári var rétt innan við einn og hálfan milljarð og afgreiðum við um þúsund tonn af vörum á ári hverju.“

Mikið er lagt upp úr vöruþróun og hafa reyndir matreiðslumeistarar verið fengnir til liðs við við fyrirtækið í þeim efnum.
Styrkurinn liggur í vörugæðum
Norðanfiskur er ekki þessi hefðbundni fiskframleiðandi á Íslandi sem stundar veiðar og frumvinnslu á þorski og ýsu.. „Við hins vegar flökum og vinnum ferskan lax alla daga á Akranesi. Reykti laxinn okkar er sérstaklega vinsæll og góður. Við flökum laxinn, pæklum og reykjum samkvæmt margsannaðri og áragamalli aðferð þar sem við notum beykivið við sjálfa reykinguna. Graflaxinn er einnig mjög vinsæll hjá okkur og svo eru neytendur hérna heima líka að kveikja á því hversu mikið lostæti heitreyktur lax er. Heitreyktur lax er í raun reyktur, eldaður lax og borðast kaldur, með eða án sósu, t.d. piparrótarsósu. Veitingahús nota heitreykta laxinn mikið í fersk salöt og forrétti en hann fæst einnig Bónus frá okkur og smakkast alveg einstaklega vel og bráðnar í munni.
Auk flökunar og áframvinnslu á laxaafurðum felst styrkur okkar klárlega í hágæða frosnu sjávarfangi, sem reksturinn byggðist upphaflega á fyrir um 20 árum síðan. Við kaupum þá til dæmis frosna hágæða þorsk- og ýsubita. Við „röspum“ þá og forsteikjum frosna. Við rétt steikjum þannig hjúpinn utan um fiskinn þannig að fiskurinn sjálfur er óeldaður og frostið helst í honum í gegnum vinnsluferlið. Þannig varðveitum við ferskleikann og gæðin og er þetta er alltaf fyrsta flokks einfrystur fiskur sem heldur gæðum sínum fullkomlega í gegnum brauðun og forsteikingu segir Sigurjón Gísli.
Stofnað á Akureyri
Norðanfiskur er stofnaður á Akureyri 2001 en sameinaðist Íslensku-frönsku eldhúsi tveim árum síðar og var starfsemin þá flutt til Akraness, þar sem Íslensk-franskt var til húsa. Á þessum tíma var Norðanfiskur í eigu Kjarnafæðis og Brim á Akureyri (ÚA), en 2014 kaupir HB Grandi (Brim hf. í dag) félagið og átti það þar til í sumar. Starfsmenn eru um 30 talsins. Aðalstarfsstöðin er á Akranesi en félagið er einnig með bækistöð í Reykjavík. Starfsstöðin í Reykjavík er hugsuð til að geta þjónustað markaðinn betur. Þar er söludeildin til húsa og þar höldum við einnig lager af okkar helstu vörum og því er hægt að afgreiða pantanir með mjög stuttum fyrirvara. „Við einsetjum okkur að vera með frábæra þjónustu og það þekkja viðskiptavinir okkar vel. Við sendum hvert á land sem er og afgreiðum allt samdægurs á höfuðborgarsvæðinu.“
Smásalan hefur aukist
Norðanfiskur framleiðir um átta milljónir matarskammta á ári. Íslendingar eru duglegir að borða fisk, en þetta fer reyndar ekki allt í íslenska maga því Norðanfiskur er að selja fiskinn á veitingahús, þar sem erlendir ferðamenn borða mikið af honum í eðlilegu árferði. Þá selur fyrirtækið fisk til flugstöðvarinnar á Reykjanesi, til flugfélaga og svo á hótel um allt land og um borð í skemmtiferðaskip, sem hingað koma. Því finnur fyrirtækið fyrir því að ferðamennina vantar. En á móti hefur komið að smásalan hefur aukist. Þó það vegi ekki upp minni neyslu ferðamanna hefur það skipt miklu máli. Fólk er duglegt við að fara út að borða og í raun hafa fjöldatakmarkanir á veitingahúsunum verið helsti þröskuldurinn. Skólarnir eru svo farnir af stað aftur eftir sumarfrí og fyrirtækin í rekstri þannig að staðan er nokkuð góð þrátt fyrir fjarveru ferðamanna.
Fjölbreytt framboð
„Eins og ég hef sagt þá erum við nú að leggja enn meiri kraft í vöruþróun og nýjungar, sem munu koma skýrt fram í vöruframboði bæði á veitingamarkaði og fyrir neytendur. Vöruframboðið er breitt þar sem fyrir utan þær vörur sem ég hef talið upp hér á undan, þ.e. lax, hvítfiskur, brauðaður fiskur, innflutt sjávarfang ofl. framleiðum við okkar eigin plokkfisk, fiskibollur, grænmetisbuff og humarsoðið okkar sívinsæla, sem er grunnur flestra veitingahúsa í dag sem bjóða upp á humarsúpu. Við bjóðum upp á hefðbundið íslenskt sjávarfang svo sem hákarl, harðfisk, gellur og áfram mætti lengi telja . Því þurfa okkar viðskiptavinir ekki að leita annað en til Norðanfisks til að fá allt sem þeir þarfnast hvað sjávarfang varðar,“ segir Sigurjón Gísli Jónsson.
Flytja inn humar úr Norðursjó
Íslenski humarinn á nú undir högg að sækja og kemur lítið af honum á land. Norðanfiskur hefur mætt þeim vanda með innflutningi á dönskum og skoskum humri. „ Auðvitað viljum við fyrst og fremst bjóða upp á íslenskan humar til okkar viðskiptavina og neytenda en því miður á íslenski humarstofninn undir högg að sækja og fyrirséð að það taki tíma fyrir hann að ná sér á strik aftur. Fyrir þær sakir hófum við samstarfi með einum stærsta humarframleiðanda Evrópu, Læso Fiskindustry, sem gerir út bæði í Danmörku og Skotlandi þar sem humarinn er að mestu veiddur úr Norðursjó. Þetta er sami humarinn og við veiðum hérna heima en er þó að öllu jöfnu örlítið smærri. Það er mikilvægt að geta boðið upp á humar til okkar viðskiptavina, bæði til veitingastaða og einstaklinga enda er humar fastur punktur á matseðli flestra heimila til að mynda um jól og áramót.
Viðtal þetta birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri. Blaðið er gefið út af Ritformi og er því dreift til fyrirtækja um allt land. Blaðið má ennfremur lesa á heimasíðu útgáfunnar á slóðinni, https://ritform.is/wp-content/uploads/2020/10/soknarfaeri_SJOR_4_tbl_okt_2020_100.pdf