Færeyingar fá minna fyrir fiskinn

Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum á fyrstu átta mánuðum ársins dróst saman um ríflega 400 milljónir færeyskra króna. Það svarar til til 9,3 milljarða íslenskra króna, eða 7%. Heildarverðmætið þetta tímabil er 111 milljarðar íslenskra króna. Magnið er hins vegar nánast það sama í tæplega 300.000 tonnum.
Lax og þorskur vega þyngt í heildarverðmætinu og þar er samdrátturinn mestur. Af laxi fóru utan 37.234 tonn í ár, tæplega 4.000 tonnum minna en á sama tíma í fyrra. Það er samdráttur um 10%. Verðmætið nú varð tæpir 50 milljarðar, sem er samdráttur um 9%.
15.813 tonn af þorski fóru nú utan og er það samdráttur um 25%. Verðmæti þessa útflutnings varð 14 milljarðar íslenskra króna, sem er 19% samdráttur.
Útflutningur á uppsjávarfiski, makríl, síld og kolmunna hefur á hinn bóginn aukist um 6 til 7%. Heildarverðmæti hefur aukist í síld og makríl, en dregist saman í kolmunna.