Ísland og Noregur sigla hvort í sína áttina

390
Deila:

Í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á þriðjudag var fjallað við um þá staðreynd að verðmæti spretta ekki af sjálfu sér við það eitt að fiskur er dreginn úr sjó. Verðmæti þorskafurða var þar til umfjöllunar. Hægt er að fara ýmsar ólíkar leiðir í verðmætasköpun. Það kemur bersýnilega í ljós þegar litið er á hvernig málum er háttað í Noregi, einu helsta samkeppnislandi Íslendinga í framleiðslu á þorskafurðum. Í þessum efnum hafa þessar tvær þjóðir í raun siglt hvor í sína áttina undanfarinn áratug.

Mishátt vinnslustig heima fyrir
Á undanförnum árum hefur meðalverð fyrir hvert útflutt kíló af þorski að jafnaði verið um 30% hærra frá Íslandi en Noregi. Ástæðan er sú að Íslendingar flytja einkum úr landi þorskafurðir sem eru að langstærstum hluta unnar heima fyrir á meðan Norðmenn fara aðrar leiðir. Þannig hefur vinnslan hér á landi þróast í að vera stöðugt flóknari og í átt að ferskum afurðum sem seldar eru á hærra verði. Á hinn bóginn hafa Norðmenn dregið úr framleiðslu á unnum afurðum. Í auknum mæli hafa þeir selt þorskinn heilan úr landi, ferskan eða frystan, sem er þá hráefni til vinnslu í öðrum löndum. Vinnsla í landi í Noregi hefur einna helst verið á saltfiski eða skreið, en afar lítið hefur farið fyrir flakavinnslu. Hærra vinnslustig og þar með verðmætasköpun heima fyrir skilar sér því augljóslega í hærra verði fyrir hvert kíló af þorski flutt úr landi frá Íslandi en frá Noregi.

Viðskiptalönd önnur
Mishátt vinnslustig þorskafurða heima fyrir, og þar með ólík samsetning afurða í útflutningi, leiðir einnig til þess að helstu viðskipalönd landanna tveggja eru ólík og hefur þróunin þar verið nokkuð önnur. Í fréttabréfi okkar í gær mátti sjá að vægi franska markaðarins fyrir þorsk frá Íslandi hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum samhliða auknum áherslum íslenskra fyrirtækja á ferskar afurðir. Á sama tíma hefur útflutningur Norðmanna til Frakklands dregist verulega saman, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Myndin sýnir 10 stærstu viðskiptalönd Norðmanna með þorskafurðir miðað við verðmæti.

Á myndinni má jafnframt sjá að Norðmenn flytja orðið æ meira til Kína, en þar er aðallega um að ræða heilfrystan þorsk. Miðað við verðmæti nam útflutningur Norðmanna á þorskafurðum til Kína rúmum 10% á árinu 2019 en miðað við magn var vægið rúm 16%. Þorskur sem fluttur er út til Kína er því að langmestu leyti hráefni til vinnslu þar í landi. Að þeirri vinnslu lokinni er hann fluttur frá Kína og ratar þá jafnvel á disk neytenda í Evrópu.

Kína er í raun stærsti innflytjandi þorsks í heiminum enda eru fleiri þjóðir en Norðmenn sem flytja þorsk til Kína til frekari vinnslu. Þar er önnur stór samkeppnisþjóð, Rússland, fremst í flokki. Kemur því ekki á óvart þegar litið er á innflutning hinna ýmsu landa á þorskafurðum, að Kína er þar oftast ofarlega á lista. Sem dæmi má nefna Bretland, en undanfarin ár hafa Kínverjar verið næststærstu útflytjendur á þorski til Bretlands, á eftir Íslendingum. Norðmenn hafa svo skipað þriðja sætið í Bretlandi. Kínverjar veiða eðli máls samkvæmt ekki Atlantshafsþorsk. Því er ljóst að sá Atlantshafsþorskur sem kemur til Bretlands frá Kína á fyrst og síðast uppruna sinn hjá Norðmönnum og Rússum, en fer til vinnslu í Kína.

Það gefur auga leið að þessi útflutningur á þorski til Kína snýst einkum um samkeppnishæfni, enda eru laun í Noregi mjög há í alþjóðlegum samanburði, líkt og á Íslandi. Vinnsla á þorskafurðum hefur þó haldist hér á landi, en til þess að viðhalda samkeppnishæfni hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ráðist í verulegar, og jafnframt nauðsynlegar, fjárfestingar í hátæknibúnaði fyrir fiskvinnslu. Sá búnaður er jafnframt að langmestu leyti íslenskur og þarf vart að nefna þau jákvæðu afleiddu áhrif sem slík fjárfesting hefur í för með sér innanlands.

Mismunandi skipulag veiða og vinnslu
Þennan áherslumun landanna tveggja, þegar kemur að því að vinna og flytja út þorsk, má að mestu leyti rekja til ólíks skipulags á veiðum og vinnslu í Noregi og á Íslandi. Grundvöllur sjávarútvegs hér á landi byggist á samþættingu veiða, vinnslu og markaðar. Það leiðir til þess að keppst er við að hámarka gæði og verðmæti afurða allan ársins hring, sem hefur þau jákvæðu áhrif að störf í sjávarútvegi hér á landi, ólíkt því sem er í Noregi, eru örugg heilsársstörf. Í Noregi er grundvallarreglan sú að veiðar og vinnsla verði að vera aðskilin. Þar er keppst við að veiða þorskinn þegar auðveldast er að ná í hann. Meira magni er því landað á ákveðnum tíma ársins. Þar er jafnframt lítill hvati til að skila hráefninu í sem mestum gæðum, þar sem lágmarksverð fyrir fiskinn er tryggt fyrirfram. Þetta veldur augljóslega fiskvinnslu í landi miklum erfiðleikum þar sem framboð á fiski, sem jafnframt er í mismiklum gæðum, er mjög mikið yfir stutt tímabil. Störfin eru því árstíðabundin, auk þess sem ekki er hægt að sinna kröfum einstakra markaða allan ársins hring.

Hvor leiðin er betri?
Eftir ofangreindan lestur má eflaust velta fyrir sér ástæðu þess að þessar tvær þjóðir fara í ólíka átt þegar kemur að framleiðslu og útflutningi á þorskafurðum. Jafnframt má velta fyrir sér hvor leiðin sé betri og þá fyrir hvern. Hér ber að hafa í huga að verulegur munur er á mikilvægi sjávarútvegs í efnahagslegu tilliti á Íslandi og í Noregi. Það leiðir síðan til þess að það svigrúm sem þessar tvær þjóðir hafa í því hvernig málum er háttað í sjávarútvegi er mismikið.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá að í Noregi hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða að jafnaði verið um 3% af vöruútflutningi síðasta áratuginn. Að meðtöldum eldislaxi er hlutfallið hærra og hefur jafnframt farið hækkandi undanfarin ár samhliða auknu laxeldi. Á Íslandi hefur vægi sjávarafurða í verðmæti vöruútflutnings á hinn bóginn verið 42% á tímabilinu, og það án eldisafurða. Þessi munur á mikilvægi skýrir vafalaust að miklu leyti þær ólíku leiðir sem þjóðirnar fara. Í Noregi hefur umgjörð sjávarútvegs snúist fyrst og fremst um að styðja við strandbyggðir. Sjávarútvegur hefur á hinn bóginn verið einn mikilvægasti grunnatvinnuvegur Íslendinga og ein mikilvægasta stoð efnahagslífsins. Er því ekki um annan kost að ræða en að reka hann á eins hagkvæman hátt og kostur er og þannig að hann skili mestum þjóðhagslegum ábata. Norska leiðin er því síður vænleg með það markmið í huga. Í þessu sem öðru er það eflaust svo að leiðavalið ræðst af markmiðunum.

 

Deila: