Hlutverk aðalfundar að skera úr um álit LS

235
Deila:

Framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda segir það hlutverk aðalfundar að skera úr um álit félagsins á kvótasetningu grásleppuveiða. Það sé ekki rétta leiðin að fara til ráðherra með stuðningsyfirlýsingu við grásleppukvóta. Þetta segir hann í samtali á ruv.is

Á framhaldsaðalfundi Landssambands smábátaeigenda á föstudag verður lögð fram tillaga um að hafna öllum hugmyndum um kvótasetningu á grásleppu. Sjávarútvegsráðherra hefur kynnt frumvarp þar sem lagt er til að kvóti verði settur á grásleppuveiðar.

Alltaf mikil umræða um grásleppuveiðar

,,Þegar grásleppumál eru annarsvegar þá er alltaf feikilega mikil umræða og nánast allir aðalfundafulltrúar sem hafa skoðun á því. Hvort sem þeir eru að veiða grásleppu eða ekki,” segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Meirihluti leyfishafa lýsti stuðningi við kvóta

Hætt er við að umræðan á fundinum á föstudaginn verði lífleg. Í vikunni var ráðherra afhent yfirlýsing þar sem 244 handhafar grásleppuleyfa lýsa stuðningi við frumvarp um kvótasetningu. Það er meirihluti leyfishafa.

Miður þegar menn fari gegn lýðræðinu

Örn bendir á að í landssambandinu séu fimmtán svæðisfélög og meirihluti þeirra hafi hafnað kvóta á grásleppu. Það sé grunnurinn að þeirri tillögu sem nú liggi fyrir aðalfundinum. ,,Og þetta er hinn lýðræðislegi vettvangur sem félagsmenn hafa samþykkt að starfa eftir. Auðvitað er það mjög miður þegar menn ákveða að fara einhverjar aðrar leiðir sem að eru ekki byggðar á þessu lýðræðislega formi.”

 

Deila: