Um þriðjungur hafsbotnsins innan lögsögu kortlagður

197
Deila:

Eitt að viðfangsefnum Hafrannsóknastofnunar er að kortleggja hafsbotninn, en jarðfræðingurinn Davíð Þór Óðinsson hefur umsjón með átaksverkefni sem nefnist „Kortlagning hafsbotnsins“. Það hófst árið 2017 og stendur til 2029. Markmið verkefnisins er að klára að mæla allan hafsbotninn innan efnahagslögsögu Íslands. Verkefnið er unnið í samstarfi við Landhelgisgæsluna sem mælir hafsbotninn þar sem hann er grynnri en 100 metrar.

Dýptarmælingar með fjölgeislamæli snúast í einfaldasta máli um, að safna fartíma hljóðbylgju frá tækinu niður á hafsbotn og upp aftur. Þessi fartími er svo umreiknaður í dýpi með aðstoð hljóðhraða sem er mældur víðsvegar um mælingasvæðið.

Fjölgeislamælirinn um borð í rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni safnar fyrst og fremst dýptarmælingum, en hann hefur einnig þann eiginleika að safna endurvarpstyrk frá hafsbotni fyrir hvern geisla. Það að auki safnar fjölgeislamælirinn upplýsingum um hluti, svo sem loftbólur, sem verða á vegi geislanna á leið þeirra niður á hafsbotninn, svipað og hefðbundin fiskleitartæki gera.

Samhliða fjölgeislamælingunum eru gerðar jarðlagamælingar með sérstökum lágtíðnimæli sem gefur mjög skýra og góða mynd af afstöðu jarðlaga undir hafsbotninum. Í dag er áhersla lögð á að klára dýpstu hafsvæðin fyrst á meðan mælirinn er nýr, vegna þess að næmni mælisins dofnar með tímanum og það eru svæðin sem verður að lokum ekki mælanleg.

Þegar átaksverkefnið hófst árið 2017 var búið að mæla um það bil 12,3% af efnahagslögsögunni. Afköst síðastliðinna ára, frá því átaksverkefnið hófst hefur skilað um 170 þúsund ferkílómetrum af samfelldum mælingum og er þá búið að mæla rúmlega þriðjung af efnahagslögsögunni, eða 34,2%.

Þetta er gríðarlega góður árangur en það er ennþá langt í land.

 

Deila: