Pönnusteikt lúða með sítrónudillsósu

Lúðan er einstaklega góður matfiskur. Hún er þéttholda og fallega hvít og auðvitað mjög bragðgóð. Beinar lúðuveiðar eru bannaðar og skylt að skila lífvænlegri lúðu aftur í sjóinn komi hún í veiðarfærin. Aðra lúðu má hirða. Fyrir vikið er oftast hægt að fá lúðu í fiskbúðum. Sé hins vegar erfitt að ná í lúðuna má nota annan fisk.
Innihald:
800g lúða, roð- og beinlaus í fjórum jöfnum bitum
sjávarsalt
svartur pipar, nýmalaður
ólívuolía til steikingar
8 stönglar aspas úr dós eða krukku
4 soðnar gulrætur
Sítrónu dillsósa:
2 bollar hvítvín, mælum með chardonnay
1 bolli skallottlaukur smátt saxaður
1 bolli ósaltað smjör, kælt og skorið í tenginga
6 msk. ferskt dill, smátt saxað
4 tsk. rifinn sítrónubörkur
6 tsk. sítrónusafi
sjávarsalt
Aðferð:
Sósan:
Hellið víninu í lítinn pott og látið laukinn krauma í því í 12 til 15 mínútur þar til það hefur soðið svolítið niður. Slökkvið á hitanum og hrærið smjörið smátt og smátt út í svo sósan þykkni. Bætið þá söxuðu dilli, sítrónuberki og sítrónusafa út í og hrærið vel saman. Leggið sósuna síðan til hliðar, en haldið heitri.
Lúðan:
Þurrkið lúðubitana vel með bréfþurrku. Kryddið þá vel með salti og pipar. Hellið olíu á pönnuna svo dýptin sé um hálfur sentímetri og snarphitið. Leggið bitana varlega í olíuna og þrýstið þeim niður með spaða til að tryggja að þeir verði fallega gullnir eða í 4 til 6 mínútur. Snúið bitunum við og steikið áfram í 4 mínútur. Tíminn fer nokkuð eftir þykkt bitanna.
Leggið aspasinn og soðnu gulræturnar á fjóra diska Færið fiskinn yfir á þá og jafnið sósunni yfir þá. Berið fram með fersku salati að eigin vali, soðnum hrísgrjónum og ristuðu brauði. Gott gæti verið að klára hvítvínið með réttinum.