Hafsjór af öllu mögulegu
Maður er nefndur Stefán Hrafnkelsson og er hann nýráðinn gæðastjóri hjá Loðnuvinnslunni. Stefán er fæddur 1968, sveitadrengur að upplagi, alinn upp í Fljótsdalnum þar sem foreldrar hans stunduðu búskap fram til ársins 1986 þegar þau fluttu til Reyðarfjarðar. Rætt er við Stefán á heimasíðu Loðnuvinnslunnar.
Hugur Stefáns leitaði til náms og dró sú leit hann til Danmerkur þar sem hann útskrifaðist sem mjólkurfræðingur og framleiðslutæknifræðingur á matvælasviði. „Ég útskrifaðist árið 2007 og hef ekki komið inní mjólkurstöð síðan,” sagði Stefán og bætti því við að þau hjónin hefðu ákveðið eftir langa fjarveru að flytja aftur „heim” þegar konu hans, Önnu Berg Samúelsdóttur, bauðst starf hjá Fjarðabyggð. „Ég var mjög sáttur við að koma aftur austur, ég er óttalegur sveitamaður inn við beinið,” bætti Stefán við og sagðist kunna betur við sig í fámenninu. Er austur kom fór Stefán til starfa í Álverinu og hefur verið þar sáttur starfsmaður þar til hann ákvað að sækja um starf gæðastjóra hjá LVF. Í því starfi getur hann nýtt menntun sína og ekki er að heyra betur en hann sé spenntur fyrir framtíðinni í nýja starfinu.
Er Stefán var inntur eftir því hvað fælist í starfi gæðastjóra svaraði hann því til að það væri „hafsjór af öllu mögulegu, eins og eftirlit með góðum starfsháttum, rakningu á vörum frá framleiðslu til neytanda, skjalavarsla, sýnataka og ótalmargt fleira.”
En lífið er ekki bara vinna, mannfólk þarf líka að hafa tíma og tækifæri til þess að stunda áhugmál sín og rækta fjölskyldu og Stefán gerir hvoru tveggja. Hann, ásamt konu sinni, stundar hestamennsku af kappi. „Við vorum að byggja okkur hesthús, það er nánast fullbúið og vel fer um hestana okkar þar,” sagði hann og svo er hann afi. Í lífi Stefáns eru tveir uppkomnir synir og ein lítil afastúlka sem á greinilega stórt pláss í hjarta afa því rödd hans fékk á sig bjartari blæ þegar hann talaði um stúlkuna.
Stefán hefur verið í starfi gæðastjóra í rúman mánuð og er ánægður. „Það var tekið gríðarlega vel á móti mér og mér mætti ekkert nema góðvild. Þetta leggst mjög vel í mig” sagði geðþekki gæðastjórinn Stefán Hrafnkelsson að lokum.
„Við óskum honum velfarnaðar og bjóðum hann hjartanlega velkominn til starfa,“ segi í fréttinni.