Sjótækni þjónustar Arctic Fish

140
Deila:

Arctic Fish og Arnarlax hafa skrifað undir þjónustusamning við Sjótækni. Þjónustusamningurinn nær utan um þrif á nótapokum í sjó, eftirlit, köfunarþjónustu, þrif á kvíum og þjónustu sérhæfðra báta.  Sjótækni er dæmi um staðbundið þjónustufyrirtæki sem verður til í margfeldisáhrifunum af fiskeldi.  Sjótækni hefur verið að þjónusta  fyrirtækin undanfarin ár.  Samningarnir eru til langs tíma og gilda út árið 2024.  Umfang þeirra gerir Sjótækni kleift að fjárfesta í búnaði til þess að þjóna þessum ört vaxandi og kerfjandi markaði.

Sjótækni er sérhæft þjónustufyrirtæki fyrir hafnsækinn iðnað uppsetningu og annast  eftirlit, viðhald og þjónustu við ýmiss konar mannvirki í sjó og vatni fyrir fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög ásamt því að reka öfluga köfunarþjónustu.  Aðalstarfsstöð Sjótækni er á Tálknafirði og hjá fyrirtækinu starfa um 15 manns en áætlað að þeim fjölgi í 20 manns næsta sumar.

Hjá Arctic Fish og Arnarlax starfa um 170 manns og langstærstur meirihluti starfsmanna eru á Vestfjörðum.  Til lengri tíma litið stefna  fyrirtækin á rúmlega 30 þúsund tonna framleiðslu hvort um sig eða samtals rúmlega 60 þúsund tonn á Vestfjörðum.  Með því að gera svona sérhæfða samninga við þjónustufyrirtæki þá gerir það, að sögn Shiran Þórissonar, Arctic Fish og Arnarlax kleift að einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni og fá til liðs við sig afbragðsfagfólk og verktaka til þess að sinna sérhæfðum, reglubundnum og tilfallandi verkefnum. „Samningar sem þessir styrkja í heild sinni innviðina fyrir fiskeldi á Vestfjörðum og eru mikilvægur hlekkur í þeirri þjónustu sem nauðsynlegt er að sé auðsótt á Vestfjörðum.“

 

Deila: