Þreföldun í flutningum

184
Deila:

Það er í nógu að snúast hjá Eimskip nú þegar jólin nálgast og landmenn keppast við að koma jólapökkunum tímanlega til sinna vina og vandamanna.  Í ár leggur Eimskip upp með forskráningu pakka á netinu svo einstaklingar geti skráð sendingar og greitt fyrir þær áður en þeim er skilað á afgreiðslustað Eimskips hvar á landinu sem er. Þuríður Tryggvadóttir er rekstrarstjóri þjónustumiðstöðvar á innanlandssviði Eimskips og segir hún í spjalli á heimasíðu Eimskips að fólk taki þessari þjónustu mjög vel í árferði sem þessu.

Þúsundir jólapakka um land allt

„Við höfum í mörg ár boðið sérkjör á sendingu jólapakka fyrir jólin og það myndast mikil stemming hjá okkur um þetta leyti. Í ár vildum við leggja upp með forskráningu á vefnum okkar, www.eimskip.is, og þannig leggja okkar af mörkum til að takmarka fjölda í afgreiðslunni hjá okkur og um leið draga úr smithættu“, segir Þuríður. „Þetta fer mjög vel af stað hjá okkur en sendingar í desember hafa nú þegar þrefaldast milli ára. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu hefur afgreiðslan gengið mjög vel en sendingar sem afhentar eru fyrir kl 15:00 eru klárar til afhendingar á landsbyggðinni morguninn eftir. Fólk virðist vera samstíga um þetta og almennt mjög meðvitað um að vinna sér í haginn til að forðast fjölmenni og biðraðir en árlega sendum við þúsundir jólapakka um land allt.“.

Jólamaturinn sendur milli landshluta

Þuríður segir að það séu ekki bara jólapakkar sem verið sé að flytja um land allt fyrir hátíðirnar. „Við hjá Eimskip erum sérfræðingar í að flytja kæli- og frystivöru og því hafa matvæli alltaf verið hluti af okkar flutningum. Fyrir þessi jólin ákváðum við að bregðast við ástandinu og hafa kæli- og frystivöru inni í jólapakkakjörunum okkar en áður hafa það bara verið almennir jólapakkar. Í ár er því hægt að senda jólasteikina, kælda eða frysta, og allt tilheyrandi hvert á land sem er fyrir aðeins 999 kr.“ segir Þuríður og bætir við „Það má því segja að við getum flutt jólin hvert á land sem er“.

Akstur í öllum veðrum

Aðspurð um það hvernig gangi að halda öllum leiðum gangandi yfir veturinn segir Þuríður að almennt gangi það vel. „Eimskip er með stærsta dreifinet landsins, áttatíu viðkomustaði. Við keyrum hvert á land sem er og bílstjórarnir okkar eiga mikið hrós skilið. Það er nánast ekki nema vegir lokist að áætlunin okkar raskist enda gætum við fyllsta öryggis í erfiðum aðstæðum. Við leggjum mikið upp úr þjónustunni okkar og vitum hversu miklu máli vöruflutningar skipta, ekki síst á landsbyggðinni“.

 

Deila: