Aðalfundur LS hafnar kvótasetningu á grásleppu

115
Deila:

Tillaga um að hafna kvótasetningu á grásleppu var samþykkt á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda. 27 atkvæði féllu með tillögunni, 16 voru andvígir henni og 3 sátu hjá.

  1. aðalfundi LS var framhaldið sl. föstudag.  Fyrri hluti fundarins sem nú er orðinn fyrsti hluti aðalfundar fór fram 15. október.  Þar var ákveðið að fresta fundi og skoða alla möguleika til að halda hefðbundinn fund.  Á biðtímanum var fundað í nefndum, allsherjar- og sjávarútvegsnefnd sem tóku fyrir tillögur frá svæðisfélögunum og afgreiddu til aðalfundar.

Þegar ljóst var orðið að ekki tækist að halda fund í sal eins og venja er var boðað til framhaldsaðalfundar.  Hann fór fram sl. föstudag, stóð frá morgni til kvölds þegar honum var frestað til nk. föstudags 18. desember.  Sá hluti fundarins verður því þriðji áfangi 36. aðalfundar LS.

Á fundinum sl. föstudag var fór mest fyrir umræðu sem tengdust stjórn grásleppuveiða.  Fyrir lá eftirfarandi tillaga:

Aðalfundur LS hafnar öllum hugmyndum um kvótasetningu á grásleppu.

Umræða um tillöguna var mjög löng og hart tekist á.  Segja má að flest þau sjónarmið sem tengdust þessu umdeilda málefni hafi komið fram.  Innlegg frá fundarmönnum voru málefnaleg þar sem aðilar héldu sig við efnið þar til greidd voru atkvæði um tillöguna.

27 atkvæði féllu með tillögunni, 16 voru andvígir henni og 3 sátu hjá.

Samhliða því að hafna öllum hugmyndum um kvótasetningu á grásleppu samþykkti fundurinn að vísa til stjórnar tillögu um að gerðar verði eftirfarandi breytingar á reglugerð um grásleppuveiðar.

Heimilt verði að stunda grásleppuveiðar frá og með 20. mars.

Grásleppuleyfi hvers báts gildi að lágmarki í 25 veiðidaga.

Veiðidagur er sá dagur sem net hjá viðkomandi bát eru í sjó.

Við ákvörðun um fjölgun veiðidaga skal ráðherra hafa samráð við Hafrannsóknastofnun og Landssamband smábátaeigenda.

Heimilt verði að sameina leyfi.  Veiðidagar sem fluttir eru frá bát skulu að hámarki vera tólf.  Við sameiningu leyfa fjölgar veiðidögum um 12 þegar bátur sem lætur frá sér leyfi er stærri en bátur sem leyfið er flutt til.  Við sameiningu leyfa þegar leyfi er flutt frá minni bát skulu fluttir dagar skerðast um 1 við hvert brúttótonn sem stærðarmismun nemur.

Grásleppuleyfi verði bundið við veiðar á einu þeirra svæða og veiðitímabil sem tilgreind eru í 3. gr. reglugerðar um hrognkelsaveiðar nr. 236/2019

Tillaga Hafrannsóknastofnunar um leyfilegan heildarafla liggi fyrir eigi siðar en 1. apríl.

 

Deila: