Samherji hyggst fjórfalda fiskeldi á Stað við Grindavík

291
Deila:

Samherji Fiskeldi ehf auglýsir nú tillögu að matsáætlun vegna stækkunar fiskeldisstöðvarinnar að Stað í Grindavík samkvæmt reglugerð um mat á umhverfisáhrifum nr.660/2015. Framleiðsluaukning er 9.000 tonn á ársgrundvelli og verður framleiðslan 12.000 tonn að loknum framkvæmdum.   Um er að ræða fjórföldun á þeirri framleiðslu sem nú er leyfi fyrir. Samherji er stærsti framleiðandi á bleikju í heiminum með um helming framboðsins.

Almenningi er gefinn kostur á að kynna sér tillöguna og gera athugasemdir við hana til og með 31.desember 2020. Í inngangi að tillögunni segir svo:
„Í þessari skýrslu er sett fram tillaga að matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar stækkunar og framleiðsluaukningar fiskeldisstöðvarinnar að Stað í Grindavík. Matsáætlun er verkáætlun um hvernig vinna við umhverfismat mun fara fram. Í skýrslunni verður framkvæmdin kynnt og settar fram upplýsingar um umfang og áherslur er varða mat á umhverfisáhrifum. Fiskeldisstöðin er staðsett á iðnaraðlóð (i7) um 8 km vestur af Grindavík og samanstendur hún af seiðastöð og áframeldisstöð. Eigandi stöðvarinnar er Samherji fiskeldi ehf og nálgast rekstrarsaga stöðvarinnar í eigu félagsins nú tvo áratugi. Félagið stækkaði stöðina á árunum 2016 til 2017 og sótti þá um ný starfs- og rekstrarleyfi til að auka framleiðsluna úr 1600 tonnum í 3000 tonn. Stöðin er því með tiltölulega ný leyfi sem tóku gildi 4.desember 2019.

Rekstrarleyfið er gefið út af Matvælastofnun og starfsleyfið gefið út af Umhverfisstofnun og heimila þau ársframleiðslu á 3000 tonnum af laxi eða bleikju. Aðstæður á Stað eru afar hagstæðar þegar kemur að aðgengi að jarðsjó og sterkir straumar og mikill sjógangur við útrás tryggir jafnframt hraða þynningu næringarefna og kemur í veg fyrir hvers konar uppsöfnun við útrás. Það var því mat Skipulagsstofnunar og umsagnaraðila að framkvæmdin og stækkunin upp í 3000 tonn væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Reksturinn hefur gengið vel og stefnir félagið nú á enn frekari uppbyggingu stöðvarinnar og aukningu í framleiðslu. Félagið stefnir á að auka framleiðslugetu stöðvarinnar um 9000 tonn þannig að hámarks framleiðslugeta hennar á ársgrundvelli verði allt að 12000 tonn. Til þess þarf að reisa eldisker, byggja aðstöðu til slátrunar og þjónustuhús innan lóðar. Til framleiðslunnar í dag notar stöðin um 3000 l/s af jarðsjó, 250 l/s af fersku vatni (4-9 prómill) og um 50 l/s af heitu vatni. Framleiðsluaukning kallar á aukna vatnstöku og verður hún fyrst og fremst á jarðsjó.“
Smellið hér til að sjá tillöguna.

Deila: