Eyjarnar komnar í jólafrí

122
Deila:

Ísfisktogarar Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, komu báðir með fullfermi til Vestmannaeyja á þriðjudag. Aflinn var mestmegnis þorskur og ýsa sem fékkst fyrir austan land. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Egil Guðna Guðnason sem var skipstjóri á Vestmannaey í veiðiferðinni.

„Við vorum að veiða á Gerpisflakinu í skítaveðri. Aflinn fékkst á fjórum dögum en megnið af honum kom þó á einum og hálfum sólarhring. Það voru yfir 20 metrar allan tímann sem við vorum þarna og svo fengum við 30 metra norðaustan á leiðinni heim til Eyja. Bergey var á alveg sama róli og við,“ segir Egill Guðni.

Eyjarnar eru nú komnar í jólafrí og munu ekki halda á ný til veiða fyrr en 2. janúar. Í því sambandi er rétt að rifja upp að skipin héldu ekki til veiða eftir síðasta jólafrí fyrr en 13. janúar vegna veðurofsa.
Ljósmynd Guðmundur Alfreðsson.

Deila: