Vinnan í nýjum Berki á áætlun

205
Deila:

Þeir Karl Jóhann Birgisson og Jóhann Pétur Gíslason vélstjóri hafa dvalið í Skagen í Danmörku í tvo og hálfan mánuð þar sem þeir hafa fylgst með framkvæmdum um borð í nýjum Berki sem er í smíðum hjá Karstensens Skibsværft. Þeir félagar komu til landsins í jólafrí 12. desember sl. og er gert ráð fyrir að Karl Jóhann og Hörður Erlendsson vélstjóri haldi til Skagen eftir áramótin þegar framkvæmdir við skipið hefjast á ný fyrir alvöru.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Karl Jóhann og spurði frétta. „Skipið liggur í Skagen og þar er unnið um borð af miklum krafti. Að undanförnu hafa um 160-170 manns starfað um borð í skipinu og til viðbótar er unnið á verkstæðum að verkefnum sem tengjast framkvæmdum um borð. Það er afar gott skipulag á framkvæmdunum. Verkfundir eru haldnir reglulega og skipinu er skipt upp í svæði og á hverju svæði er verkstjóri sem ber ábyrgð á öllu sem þar fer fram. Það gengur allt snurðulaust fyrir sig og það er í reynd aðdáunarvert hvernig að málum er staðið. Verkið er á áætlun og samkvæmt henni  á skipið að fara í prufusiglingu í lok febrúar og afhending þess að eiga sér stað í apríl. Ýmislegt getur þó raskað áætluninni og það er þá helst covid.

Lokið er við að koma krönum og vindum fyrir í skipinu. Sá búnaður vóg 200 tonn. Ljósm. Karl Jóhann Birgisson.

Jóhann Pétur fylgist grannt með öllum framkvæmdum sem snerta vélar og tæki. Hann dvelur löngum stundum í vélarrúminu þar sem meðal annars þarf að ganga frá tveimur aðalvélum og tveimur ljósavélum. Á dögunum var gengið frá öllum krönum og vindum í skipinu og vó sá búnaður hvorki meira né minna en 200 tonn. Hafa skal í huga að við framkvæmdir um borð í Berki njótum við þess að systurskipið, Vilhelm Þorsteinsson, er einnig í smíðum hjá Karstensens og framkvæmdir þar eru lengra komnar. Vilhelm fór til dæmis í prufusiglingu á dögunum sem gekk afar vel. Það auðveldar ýmislegt hjá okkur að vera skip númer tvö,“ segir Karl Jóhann.

Deila: