Blængur úr brælutúr

101
Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í morgun að aflokinni 15 daga veiðiferð. Afli skipsins var 350 tonn upp úr sjó að verðmæti 104 milljónir króna. Uppistaða aflans var karfi, þorskur og ufsi. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvernig veðrið hefði verið í veiðiferðinni.

„Þetta var mikill brælutúr. Veðrið var vissulega misjafnlega slæmt en það fór aldrei niður fyrir 15-20 metra. Við byrjuðum á að sigla vestur fyrir land og hófum veiðar á Vestfjarðamiðum. Þar var unnt að vera í eina fimm daga en þá gerði vitlaust veður og þá var haldið austur fyrir land. Undir lokin veiddum við síðan úti fyrir suðurströndinni. Við vorum á eilífum flótta undan veðrinu. Það má auðvitað gera ráð fyrir svona veðurlagi á þessum árstíma, það er víst vetur,“ segir Bjarni Ólafur.

Landað var úr Blængi á föstudag og síðan haldið af stað til Akureyrar þar sem framundan er mánaðar slippur. Gert er ráð fyrir að skipið haldi á ný til veiða 29. janúar.
Ljósmynd Smári Geirsson.

Deila: