Íslensk belgísk samvinna um rannsóknir á lindýrum

420
Deila:

Christiane Delongueville og Roland Scaillet eru belgískir dýrafræðingar sem útskrifuðust árið 1974 frá háskólanum Université Libre de Bruxelles í Belgíu. Samhliða störfum sínum í lyfjaiðnaði á níunda áratug síðustu aldar fengu þau ástríðu fyrir rannsóknum á lindýrum, oft nefnd skeldýr og þá sérstaklega fyrir útbreiðslu evrópskra lindýra og þeim áhrifum sem athafnir mannsins og loftslagsbreytingar geta haft á þessi dýr.

Sérhæfð í samfélögum lindýra við Ísland og á norðurslóðum

Christiane og Roland eru komin á eftirlaun í dag en sitja í stjórn Konunglega belgíska lindýrafélagsins og öðrum félögum tengdum lindýrum, auk þess að vera starfandi vísindamenn við Konunglegu belgísku náttúrufræðistofnunina. Þau hafa birt yfir 60 greinar í vísindatímaritum, bæði á frönsku og ensku og fyrir áhugasama er þær m.a. að finna á vefsíðu Research Gate; www.researchgate.net.

Áhuga Christiane og Rolands á dýralífi Norður-Evrópu má rekja til ferða þeirra til Írlands og Skotlands en frá 1994 til 2014 sérhæfðu þau sig bæði í rannsóknum á samfélögum lindýra í sjónum við Ísland. Christiane laðaðist fljótt að Norðurlöndunum og hefur hún heimsótt bæði Færeyjar, Svalbarða, Austur-Grænland og Barentshafið, ásamt því að koma 15 sinnum til Íslands.

Upphaf samstarfsins má rekja til Sjómanndagsins í Reykjavík 2010

Það var á Sjómannadeginum í Reykjavík, árið 2010, sem Christiane hitti fiskifræðinginn Jónbjörn Pálsson, sem nýverið lét af störfum hjá Hafrannsóknastofnun. Í framhaldi af fundi þeirra hóf Jónbjörn að safna lindýrum í árlegum leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar og var það upphafið að samstarfi Belganna við Hafrannsóknastofnun, sem stendur enn í dag. Þessi söfnun opnaði leið til að skrá lindýr sem fást sem meðafli við fiskirannsóknir Hafrannsóknastofnunar og þar með var hafin rannsókn á útbreiðslu lindýra umhverfis Ísland.

Auk nokkurra verka sem Thorson (1941) og Madsen (1949) unnu um dýrafræði Íslands, var það hinn ágæti íslenski grasafræðingur og skeldýrafræðingur Ingimar Óskarsson sem var fyrstur til að skrifa bók um skeldýr við Ísland (Skeldýrafána Íslands 1952-1962). Með þessi rit og greinar Anders Warén til stuðnings hafa Christiane og Roland skrifað árlegar skýrslur og skjalfest fundarstaði 174 tegunda lindýra, sem fengist hafa í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar. Einnig hafa verið birtar vísindagreinar um nýstárleg lindýr og nýja fundarstaði þeirra.

Myndir á vef um sjávarlífverur

Mikilvægur afrakstur þessa belgísk-íslenska samstarfs eru greiningarspjöld sem Christiane og Roland uppfæra ár hvert. Þá hófu starfsmenn stofnunarinnar núverið að safna magainnihaldi flatfiska og ýsu, sem eru ekki síðri en botnvörpur til að safna lindýrum. Nú stendur til að birta þessi gögn í skýrslum Hafrannsóknastofnunar í samstarfi við Steinunni Hilmu Ólafsdóttur sjávarvistfræðing. Einnig er stefnt að því að nýta ljósmyndir af lindýrunum á vefsíðu um sjávarlífverur; https://www.hafogvatn.is/is/sjavardyr, sem ljósmyndarinn Svanhildur Egilsdóttir hefur umsjón með.

 

Deila: