Olla kveður VSV eftir að hafa starfað þar í nær hálfa öld

112
Deila:

„Auðvitað er tilveran undarleg á köflum. Ég sakna vinnunnar og vinnufélaganna en þegar illa viðrar er vissulega þægilegt að geta bara verið heima í hlýjunni! Mér hefur annars alltaf líkað vel í fiskvinnslu og Vinnslustöðin var alltaf góður vinnustaður,“ segir Ólöf Hauksdóttir – Olla, fiskverkakona sem lét nýlega af störfum í Vinnslustöðinni. Hún fór að vinna þar í mars 1971 og hefur verið í starfsmannahópnum nokkurn veginn samfleytt á síðan þá. Rætt er við hana á heimasíðu VSV.

„Ég flutti upp á land í gosinu 1973 og vann í nokkra mánuði í frystihúsinu á Stokkseyri en kom hingað til Eyja aftur strax um sumarið og var í hópi þeirra sem þrifu hús Vinnslustöðvarinnar og komu hlutum í lag til að hefja starfsemi á ný.

Síðar réði ég mig til afleysinga á elliheimilinu í Eyjum en fann mig ekki í því starfi. Fiskurinn togaði í mig og eftir það var ég hjá Vinnslustöðinni óslitið þar til nú.

Aldrei stóð annað til en ég yrði vinnandi í tvö ár í viðbót og næði þar með ríflega hálfrar aldar starfsafmæli en það gekk bara ekki. Í desember 2019 var ég á leið til vinnu í miklu óveðri og í einum sviptivindinum tókst ég hreinlega á loft og skall harkalega niður á hægri hlið. Eftir það fer kuldi illa í skrokkinn á mér og ég finn enga aðra skýringu á því en byltuna miklu í fyrra. Starfslokin mín bar því brátt að, ég hafði ekki velt því fyrir mér að hætta núna og viðbrigðin eru því meiri þess vegna.“

Óhætt er að segja að Ólöf sé af Vinnslustöðvarfjölskyldu komin. Foreldrar hennar voru Haukur Guðmundsson og Theódóra Óskarsdóttir. Hann var verkstjóri í Vinnslustöðinni og um hríð voru þar þrjár dætur hans samtímis líka: Ósk, Stella og Ólöf. Ósk og Stella eru látnar.

Stella Hauks var þjóðþekkt söngvaskáld og trúbador. Hún var líka þekkt baráttukona fyrir réttindum og kjörum fiskverkafólks og skipaði forystusveit Verkakvennafélagsins Snótar í Vestmannaeyjum.

Myndin: Lilja Björg Arngrímsdóttir, sviðsstjóri mannauðs- og lögfræðisviðs VSV, afhendir Ólöfu kveðju í tilefni jóla og starfsloka.

 

Deila: