Ekki farið eftir ýtrustu ráðleggingum fiskifræðinga fyrr en 2009

153
Deila:

Þó sumir telji að farið hafi verið að tillögum fiskifræðinga og ákvörðunum stjórnvalda um leyfilegan heildarafla af þorski frá tilkomu kvótakerfisins 1984, er það alrangt. Munurinn á tillögum fiskifræðinga frá 1984 til 1991 og ákvörðun stjórnvalda um heildarafla er samtals 265.000 tonn á þessu tímabili. En heildarafli verður miklu meiri en ætlað var. Hann fer 417.000 tonn fram yfir ákvörðun stjórnvalda og 682.000 tonn umfram ráðleggingar fiskifræðinga. Það er í raun ekki fyrr en frá og með árinu, sem tillögum fiskifræðinga er að fullu fylgt af yfirvöldum og veiðistjórnin er nægilega öflug til að halda veiðunum við þau mörk sem Hafrannsóknastofnun reiknar út eftir aflareglu.

Yfir þessi mál er farið með doktor Kristjáni Þórarinssyni, stofnvistfræðingi hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútveg, í viðtali í jólablaði tímaritsins Ægis.

Það má segja að árið 1991 sé eins konar byrjunarár. Þá gildir aflahlutdeild ekki lengur tímabundið, búið er að afnema sóknarmarkið og framsal að mestu gefið frjálst. Þá er fyrsta svokallaða fiskveiðiárið stubbur, átta mánuðir, en fyrsta heila fiskveiðiárið er 1991 til 1992, frá fyrsta september og út ágúst. Kristján byrjaði á því að sökkva sér niður  í skýrslur og vinnuplögg fiskifræðinganna, sem hann fékk greiðan aðgang að.

Fræg ráðgjöf

„Svo kom ráðgjöfin seint í maí 1992 og hún varð fræg. Þá var það almannarómur að ef þorskafli landsmanna færi niður fyrir 300.00 tonn yrði efnahagsástandið erfitt. Árið áður hafði verið 265.000 tonna ráðgjöf hjá Hafró. Síðan kemur ráðgjöf frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu, ICES, upp á 150.000 tonn fyrir almanaksárið 1993. Þá sáu menn hve alvarlegt málið var. Á þessum árum eru útgerðarfélögin miklu fleiri og miklu smærri. Það sagði sig sjálft að ekki væri hægt að reka allan flotann á þessum litla afla. Hafró fer svo yfir málin og kemur með ráðgjöf sem er hærri en frá ICES, eða upp á 190.000 tonn. En þá ber að hafa í huga að ráðgjöf Hafró var hærri af því að stofnunin var að miða við fiskveiðiárið, sem byrjar fjórum mánuðum fyrr en almanaksárið.

Eins og grafið sýnir er veitt langt umfram ráðleggingar fiskifræðinfa á fyrstu árunum eftir að kvótakerfið kom á. Stjórnvöld heimiluðu meiri heildarafla en náðu síðan ekki að halda veiðunum í skefjum vegna gata sem þau sköpuðu í kerfinu og sóknarmarks sem var samshliða kvótakerfinu á þessum árum.

Viðbrögðin við þessu voru mikil í þjóðfélaginu því sjávarútvegurinn gegndi mun stærra hlutverki í þjóðarbúskapnum þá en nú og þorskurinn þar mikilvægastur, eins og reyndar alla tíð. Það fór allt á annan endann og alls konar skoðanir voru á lofti, bæði á þingi og í þjóðfélaginu, meðal annars hvort hægt væri að treysta fiskifræðingum. Þá gilti ennþá það viðhorf að sá væri mestur og bestur sem var tilbúinn að veiða mest. Mitt hlutverk var þá að setja mig inn í málin og skilja á hverju ráðgjöfin byggðist og miðla þeirri þekkingu til útgerðarinnar,“ segir Kristján.

Síðan voru erfiðir tímar framundan. Árið 1993 var mjög erfitt í þorskveiðunum og þá fóru skipin í tugatali á þorskveiðar í Smugunni í Barentshafi. Sjávarútvegsráðherra fer þá þess á leit við Hafró að farið verði í vinnu til að veita langtíma ráðgjöf um nýtingu þorskstofnsins. Þá er fyrsta aflareglunefndin skipuð. Formaður var Brynjólfur Bjarnason, formaður stjórnar Hafró og framkvæmdastjóri Granda. Svo voru þrír frá Þjóðhagsstofnun, Þórður Friðjónsson, Ásgeir Daníelsson og Friðrik Már Baldursson. Frá Hafró Jakob Jakobsson og Gunnar Stefánsson og loks Kristján Þórarinsson frá LÍÚ.

Skiluðu tillögum um aflareglu

„Við skiluðum tveimur skýrslum og komum með tillögur um aflareglu. Niðurstaða nefndarinnar var að miða við 16 til 22% af viðmiðunarstofni sem var skilgreindur sem fjögurra ára og eldri fiskur og miðað við þyngd og ákveðin sveiflujöfnun. Miða mætti við efri hluta bilsins þegar framleiðsla í stofninum, nýliðun og vöxtur, væri góð.

Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að höfðu samráði við vísindamenn Hafró, að fara í 25%, sem er ekki 3% meira en nefndin lagði til heldur nærri 14% meira, og þar að auki ekki með þessari varfærnu sveiflujöfnun sem við vorum með heldur öðru fyrirkomulagi, sem magnar upp sveiflur. Það var niðurstaða Hafrómanna að þetta væri betra heldur en það fyrirkomulag sem unnið var með, sem var í rauninni ekkert fyrirkomulag. Spurningin sem alltaf kom upp á þessum árum var hve mikið væri óhætt að veiða til að þorskstofninn hætti að minnka. Það var minna spurt hvað væri skynsamlegt að veiða mikið til að tryggja að stofninn yxi og veiðarnar yrðu meiri og hagkvæmari. Það var ekkert hægt að halda þannig í horfinu til lengdar. Menn töldu þetta því vera mikið framfaraspor og það var það vissulega.“

„Staðreyndin er sú að það hefur aldrei verið farið eftir tillögum fiskifræðinga um skynsamlegustu nýtingu þorskstofnsins fyrr en þetta, sama hvað sem sumir hafa haldið fram um það. Það er líka staðreynd að í stjórnkerfið vantaði lengi vel tæki og tól til að koma í veg fyrir að afli færi umfram útgefinn kvóta. Það voru líka göt í kerfinu eins og varðandi veiðar smábáta allt til ársins 2005. Þetta var því löng og ströng vinna til framfara sem margir komu að en hvorki einfalt né heldur gert í einum rykk.“

Sveiflumagnari

Svo gerist það að Hafrannsóknastofnun ofmetur stærð þorskstofnsins s ár eftir ár. Stofninn minnkar og kvótinn sömuleiðis. „Annað var útskýring að hluta til á því af hverju þetta for svona illa, sem var sú að aðferðin í aflareglunni sem var sett árið 1995 var til þess fallin að magna upp skekkjur og gera þær alvarlegri en ef farið hefði verið eftir því sem við lögðum til. Í staðinn fyrir sveiflujafnara fólst sveiflumagnari í aflareglunni, sem fyrr segir,  sem gerði áhrif ofmatsins skaðlegri en ella hefði orðið.  Hitt var að nefndin ítrekaði fyrri ráðgjöf um varfærnari aflareglu með lægra veiðihlutfalli og heppilegri sveiflujöfnun. Á þessum árum fólst ráðgjöf Hafró svo í því að brýnt væri að endurskoða aflaregluna eins og nefndin lagði til,“ segir Kristján.

 

 

 

Deila: