Láta gott af sér leiða

135
Deila:

Skipverjar á skipum Samherja hafa gefið vel á aðra milljón króna til góðra málefna fyrir þessi jól. Stærstur hluti fjárhæðarinnar rann til Jólaaðstoðarinnar sem styrkir 300 einstaklinga og fjölskyldur á Eyjafjarðarsvæðinu.

Áhafnir skipa Samherja hafa mörg undanfarin ár tekið sig saman og látið fjármuni af hendi rakna til góðra málefna. Hafa mörgum góðgerðarfélögum því verið færðar myndarlegar peningagjafir á síðustu árum. Að þessu sinni var það áhöfnin á Björgu EA 7 sem átti frumkvæðið að því að hvetja aðrar áhafnir til að styrkja góð málefni fyrir jólin.

„Margir skipverjanna á Björgu voru áður á Oddeyrinni og við höfum reglulega gefið fé í góð málefni fyrir hátíðarnar. Það kom hugmynd frá einum skipverja hvort það væri áhugi fyrir því að styrkja ákveðið verkefni. Í kjölfarið skoruðum við á áhafnir annarra skipa hjá Samherja. Það var bara gert í gegnum tölvupóst og það var alls staðar vel tekið í þessa hugmynd,” segir Árni Rúnar Jóhannesson, stýrimaður á Björgu EA 7.

Um er að ræða áhafnir á Björgu EA 7, Björgúlfi EA 312, Björgvini EA 311, Kaldbak EA 1, Harðbak EA 3 og Margréti EA 710. Skipverjar á þessum skipum gáfu samtals 1,6 milljónir króna að þessu sinni. Stærstur hluti fjárhæðarinnar fór til „Jólaaðstoðarinnar 2020“ í Eyjafirði. Um er að ræða samstarfsverkefni Mæðrastyrksnefndar Akureyrar, Hjálparstarfs kirkjunnar, Rauða krossins og Hjálpræðishersins. Jólaaðstoðin styrkir ár hvert um 300 einstaklinga og fjölskyldur á Eyjarfjarðarsvæðinu fyrir jólin. Önnur góð málefni nutu líka góðs af gjafmildi skipverjanna en þar má meðal annars nefna björgunarsveitina Ísólf á Seyðisfirði.

„Samstaða áhafna á skipum Samherja er mikil og menn eru mjög samstíga þrátt fyrir að vera ekki saman á skipi enda þekkjast flestir í þessum áhöfnum og hafa verið saman á sjó í gegnum tíðina. Ég held að ég geti talað fyrir okkur alla þegar ég segi að það er okkur sönn ánægja að geta látið gott af okkur leiða og með þessu sannast að margt smátt gerir eitt stórt. Enda hafa áhafnir skipa Samherja verið duglegar að styrkja góð málefni þótt oftast hafi það farið hljótt. Við höfum auðvitað skynjað mikið þakklæti frá þeim sem hafa tekið við styrkjunum en ánægjan er síst minni okkar megin,“ segir Árni Rúnar Jóhannesson.

 

Deila: