„Samstaða, samheldni og virðing“

113
Deila:

„Ég tel að leiðin fram á við fyrir okkur öll snúist um samstöðu, samheldni og virðingu fyrir hvert öðru.  Því miður þá virðist hið neikvæða, niðurrif og svartsýni eiga meira erindi í opinbera umræðu en látum slíkt ekki leiða okkur áfram á nýju ári.“ Svo ritar Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í áramótapistli á heimasíðu félagsins. Pistillinn er svohljóðandi:
„Um áramót notum við gjarnan tækifærið til að líta yfir liðið ár og huga að tækifærum nýs árs.  Það er eflaust mörgum létt við þá tilhugsun að þetta blessaða ár sé senn á enda. Við höfum þurft að lifa við skerðingar á lifnaðarháttum sem að eiga sér vart fordæmi. Það er samt sem áður tilefni til bjartsýni og virðumst við vera farin að sjá ljósið við enda ganganna í baráttunni við þann skæða vágest sem covid 19 er.

Faraldurinn hefur haft áhrif á starfsemi og rekstur Síldarvinnslunnar líkt og flestra annarra fyrirtækja. Við störfum á alþjóðlegum mörkuðum og seljum afurðir okkar til fjölmargra landa. Við höfum þurft að aðlaga framleiðslu og sölu á afurðum í takt við breytingar á eftirspurn á mörkuðum.  Sumir markaðir nánast hurfu á meðan aðrir höktu, höggið er mikið á mörkuðum  fyrir fisk sem fer á veitinga- og gististaði í helstu ferðaþjónustulöndunum.
Starfsmenn Síldarvinnslunnar hafa mætt þessum áskorunum með þrautseigju. Þeir hafa allir  lagst á eitt og samstaðan hefur verið aðdáunarverð. Starfsmenn hafa þurft að færa miklar fórnir þegar þeir hafa sinnt ýmsum tilmælum. Skerða hefur þurft samgang starfsmanna og vina.  Sjómenn hafa tekið á sig fórnir í lengri útiverum. Starfsmenn hafa fórnað ferðalögum.  Það hafa allir lagt sitt af mörkum.
Fyrirhuguð árshátíðarferð til Póllands á haustmánuðum, sem við biðum öll eftir, var blásin af, við munum finna tíma síðar til að gleðjast og fagna saman um leið og tækifæri gefst til.  Við skulum gleðjast þeim mun meira þegar þar að kemur.
Árið byrjaði með loðnubresti annað árið í röð sem voru vonbrigði en við bindum miklar vonir við komandi vertíð, enda flest sem bendir til að framundan sé góð loðnuvertíð og við trúum því að markaðirnir bíði eftir afurðunum þannig að það er full ástæða til að vera bjartsýn.
Við héldum áfram að efla og styrkja innviði félagsins með frekari fjárfestingum. Það sem  stendur hæst upp úr í þeim efnum eru kaup dótturfélags okkar Bergs- Hugins ehf á öllu hlutafé í Bergur hf. Renna þau  kaup  enn sterkari stoðum undir starfsemi okkar  í Vestmannaeyjum.
Þrátt fyrir ýmsar mótbárur þá berum við höfuðið hátt, reksturinn gekk vel þegar leið á árið.  Veiðar og vinnsla uppsjávarfiska gekk vel, markaðir þar voru góðir.  Bolfiskmegin voru meiri brekkur, við þurftum að  draga úr veiðum og vinnslu, frosnar afurðir hafa hlaðist upp en þrátt fyrir það treystum við á bjartari tíma.
Á nýju ári fáum við nýjan Börk sem mun bætist í skipaflota félagsins á fyrri hluta ársins og verður hann í hópi fullkomnustu uppsjávarskipa í heiminum og mun styðja enn við markmið okkar um hagkvæmari skip, minni útblástur og betra hráefni.
Á nýju ári eru alþingiskosningar og í aðdraganda þeirra bera málefni sjávarútvegs iðulega á góma. Þjóðhagslegt mikilvægi sjávarútvegs hefur sannað sig á árinu og enn og aftur kemur í ljós að öflugur sjávarútvegur er þjóðhagslega mikilvægur.  Við eigum að sameinast um að tryggja að þessi þjóðarauðlind okkar geti verið undirstaða lífskjara í landinu.  Þrátt fyrir að oft og iðulega sé tekist á um málefni greinarinnar, hef ég fulla trú á því að á komandi ári munum við fá uppbyggilega og málefnalega umræðu um málefni sjávarútvegsins.    Pólitíkusum allra flokka er velkomið að heimsækja Síldarvinnsluna og kynna sér starfsemi hennar á komandi ári.
Heimabærinn minn lenti í náttúruhamförum rétt fyrir jól, þar sem fólk þurfti að yfirgefa heimili. Guðs blessun var að engin slys urðu á fólki. Ég óska þess að á nýju ári komi fram trúverðugar áætlanir um varnir fyrir Seyðfirðinga þannig að þeir geti fundið ró í sínum fallega heimabæ, sem ég tel að sé fegursti bær landsins.
Ég tel að leiðin fram á við fyrir okkur öll snúist um samstöðu, samheldni og virðingu fyrir hvert öðru.  Því miður þá virðist hið neikvæða, niðurrif og svartsýni eiga meira erindi í opinbera umræðu en látum slíkt ekki leiða okkur áfram á nýju ári.

Kæru samstarfsmenn, ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegs nýs árs og ég vona að við getum fyrr en síðar átt fleiri samverustundir.
Ég hef oft sagt að árangur Síldarvinnslunnar megi þakka framúrskarandi starfsfólki og öflugum samfélögum sem fyrirtækið starfar í. Það hefur sannað sig enn og aftur á árinu 2020. Nú tökum við áramótin með okkar nánustu og njótum.
Mætum árinu 2021 samstillt og ákveðin í aðlaga okkur að þeim áskorunum sem okkur bíða, snúum bökum saman, gerum okkar besta og bara aðeins betur ef það er það sem þarf.“

Deila: