Vónin með nýtt kolmunnatroll

199
Deila:

Þegar miklum veiðum á kolmunna vestur af Írlandi lýkur að áliðnum vetri, heldur kolmunninn í ætisgöngur norður í gegn um færeysku lögsöguna og dreifir sér verulega frá því sem er við Írland. Þar er hann í þéttum torfum. Til að mæta þessu hefur færeyska netagerðin Vónin hannað stækkun á uppsjávartrollinu 2.300 Capto upp í Capto 2.600.

Nýja trollið hefur verið í notkun hjá nokkrum færeyskum uppsjávarskipum á þessu ári eins og Götunesi, Þrándi í Götu og Arctic Voyager.

Götunes hét áður Gitte Henning og er gríðarstórt uppsjávarveiðiskip.

Nýja trollið er sett upp með mikla opnun en er engu að síður aðeins örlítið þyngra í drætti en 2.300 trollið. Opnun nýja trollsins er 275 metrar á breidd og 135 metrar á hæð og hentar því vel fyrir dreifðan fisk.

Trollið sem færeysku skipin eru að nota eru útbúin með sérstöku undirbyrði, sem eykur flæði sjávar í gegn um það og eykur opnun möskvanna og fyrir vikið þenst belgurinn betur út. Vegna góðs árangurs færeysku skipanna á kolmunnaveiðum að undanförnu, hefur eftirspurn eftir trollinu verið vaxandi.

 

Deila: