Byggðakvótareglur Tálknafjarðar stranda í ráðuneytinu
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekki afgreitt sérreglur Tálknafjarðhrepps vegna byggðakvóta yfirstandandi fiskveiðiárs 2020/21. Þau svör fást úr ráðuneytinu að reiknað sé með því að afgreiðslu ljúki síðari hluta janúar.
Sveitarfélagið sendi ráðuneytinu í október 2020 tillögur sínar um reglur og var bókað á fundi sveitarstjórnarinnar að að settar yrðu sérreglur fyrir Tálknafjörð með svipuðum hætti
og gert var fyrir fiskveiðiárið 2019-2020.
Verulegar breytingar frá síðasta ári
Bæjarins besta hefur fengið afhentar tillögurnar sem sendar voru ráðuneytinu og kemur þá í ljós, andstætt því sem ætla mátti af bókun sveitarstjórnarinnar, að lagt er til að breyta reglunum frá því sem var á síðasta fiskveiðiári. Í fyrsta lagi vill sveitarstjórnin að allur byggðakvótinn verði úthlutaður á báta sem lönduðu afla í Tálknafjarðarhöfn, helmingur jafnt milli báta og helmingurinn í samræmi við magn hvers. Í öðru lagi er nú gerð krafa um að öllum byggðakvóta verði landað í Tálknafjarðarhöfn og í þriðja lagi verði heimilt að selja helming byggðakvótans á fiskmarkað án vinnsluskyldu.
Þetta eru allt verulegar breytingar frá síðast fiskveiðiári. Þá var úthlutun miðuð að hálfu við löndun á Tálknafjarðarhöfn og að hálfu miðuð við landaðan afla til vinnslu í Vestur Barðastrandarsýslu og allur byggðakvótinn varð að fara til vinnslu innan byggðarlaga í Vestur-Barðastrandarsýslu.
Ráðuneytið vill breytingar
Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið sendi sveitarstjórn bréf dags. 30.11.2020 varðandi úthlutun byggðakvóta 2020/2021 og gaf henni kost á að óska eftir breytingum á innsendum tillögum áður en ráðuneytið tekur þær til efnislegrar meðferðar.
Á fundi sínum 10. desember ítrekaði sveitarstjórnin áður innsendar tillögur um úthlutun byggðakvóta í Tálknafirði og bókað var að hún hyggist ekki breyta þeim.
Engin vinnsla er á Tálknafirði en hins vegar á Patreksfirði hjá Odda hf. Ljóst er að sveitarstjórn vill losna undan þeirri kvöð sem almennt fylgir byggðakvóta að aflinn verði unninn á atvinnusvæðinu. Þá má ætla að fiskverð á fiskmarkaði sé hærra en í beinum viðskiptum milli útgerðar og vinnslu. Eins eru breytingarnar ætlaðar til þess að tryggja hafnarsjóði tekjur af öllum byggðakvótaaflanum.
Byggðakvóti Tálknafjarðar verður 300 tonn.
Mynd og frétt af bb.is