Fisk Seafood hagnaðist um þrjá milljarða í fyrra

146
Deila:

„Hagnaður frá rekstri FISK Seafood og dótturfélaga á síðasta ári nam um þremur milljörðum króna. Við lækkuðum skuldir og fjárfestum jafnframt í tækjabúnaði, breytingum, viðhaldi o.fl.. Áfram verður haldið á braut nýrra fjárfestinga en á sama tíma er einnig óhjákvæmilegt að rýna í flóknar stöður reksturs sem ekki hefur til þessa verið arðbær. Bleikjueldið í Þorlákshöfn og á Hólum er þar á meðal.“

Þetta kemur fram í áramótapistli Friðbjörns Ásbjörnssonar framkvæmdastjóra Fisk Seafood á Sauðárkróki. Pistillinn er svo hljóðandi:

„Árið 2020 er að baki. Sumir segja eflaust sem betur fer. Við hjá FISK Seafood njótum þó þeirrar gæfu að starfa í atvinnuvegi sem þokkalega getur haldið sjó í áföllum á borð við Covid-faraldurinn enda þótt auðvitað sé snúið fyrir okkur öll að stíga þessa öldu nánast allt síðastliðið ár og augljóslega áfram í einhverja mánuði hið minnsta. Öðruvísi náum við samt aldrei að halda því jafnvægi þriggja þátta sem sem öllu skipta í rekstri félagsins – veiðum, vinnslu og sölu. Kannski má líkja ástandinu við styrjöld þar sem húsin reyndar standa en almennir borgarar um allan heim veikjast og jafnvel deyja, sumar greinar atvinnulífsins hrynja, alþjóðlegt efnahagslíf fer kollhnís og neyslumynstur í viðskiptalöndum okkar tekur stökkbreytingum á meðan faraldurinn gengur yfir.

Í öllum þessum veltingi hefur mikið reynt á samstöðuna og ég vil í upphafi nýs árs þakka bæði starfsfólki og stjórn FISK fyrir allt sitt mikla framlag. Æðruleysi og þolinmæði starfsfólks sem vann nánast allt árið við stífar sóttvarnarreglur, sem við bárum gæfu til þess að slaka aldrei á, skipti gríðarlegu máli. Útsjónarsemi og kjarkur til ákvarðanatöku kemur okkur í þá stöðu að geta heilsað nýju ári full bjartsýni og reiðubúin í áframhaldandi uppbyggingu.

Í þeirri vegferð er af mörgu að taka og ekki þarf endilega allt að gerast á árinu – en að minnsta kosti þarf að setja stefnuna og hefja undirbúning. Togarinn Málmey og frystiskipið Arnar nálgast nú þann aldur að þörf er á endurnýjun. Sömuleiðis þarf að hefja undirbúning mikillar uppbyggingar og endurnýjunar húsakosts á eyrinni hér á Sauðárkróki til þess að styrkja rekstur fiskvinnslunnar til muna. Framundan eru því umtalsverðar fjárfestingar, m.a. með niðurrifi húsakosts og nýbyggingum, nýjum tækjabúnaði, t.d. fyrir svokallaða Skinpack-framleiðslu, o.fl. Með nýjum skipum og endurnýjuðu frystihúsi munu aðstæður okkar til veiða og vinnslu verða í allra fremstu röð hér á landi.

Við höfum síðustu misserin verið dugleg við að laga til í kringum okkur, malbika, mála og bæta ásýnd vinnusvæðanna. Næsti áfangi þessa átaks hefur verið að koma vannýttu húsnæði á okkar vegum í endurnýjun lífdaga. Við höfum selt tvær eignir í Grundarfirði og losað um eignarhald okkar á fasteigninni sem áður hýsti frystihúsið á Hofsósi. Framundan er einnig að afhenda sveitarfélaginu á Skagaströnd án endurgjalds svokallað stjórnsýsluhús þar sem Vinnumálastofnun er nú til húsa ásamt skrifstofum sveitarfélagsins o.fl. Jafnframt hefur verið ákveðið að afhenda sveitarfélaginu með sama hætti mannvirkin tvö sem áður hýstu gömlu síldarvinnsluna og rækjuvinnsluna. Þannig öðlast allmargir vannýttir húsnæðisfermetrar nýtt líf og hlutverk. Vonandi verður þetta framlag FISK Seafood atvinnulífinu á Skagaströnd mikilvæg lyftistöng.

Hagnaður frá rekstri FISK Seafood og dótturfélaga á síðasta ári nam um þremur milljörðum króna. Við lækkuðum skuldir og fjárfestum jafnframt í tækjabúnaði, breytingum, viðhaldi o.fl.. Áfram verður haldið á braut nýrra fjárfestinga en á sama tíma er einnig óhjákvæmilegt að rýna í flóknar stöður reksturs sem ekki hefur til þessa verið arðbær. Bleikjueldið í Þorlákshöfn og á Hólum er þar á meðal.

Stjórnvöld á Íslandi hafa lengi daufheyrst við óskum okkar og sveitarfélagsins um bætta hafnaraðstöðu og hafnarbát hér á Sauðárkróki. Höfnin er mikilvæg útflutningshöfn á norðurlandi og hún er líka orðin umsvifamikil í uppskipun alls kyns aðfanga fyrir rekstur og framleiðslu í landshlutanum. Skipin sem hingað koma fara stöðugt stækkandi og öryggið sem stærri höfn og góður dráttarbátur færir okkur er gífurlega mikilvægt. Að þessari uppbyggingu þurfa stjórnvöld að huga samhliða því sem atvinnulífinu í Skagafirði hefur með ýmsum hætti vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum og heldur því vonandi áfram.

Við hjónin ákváðum á síðasta ári að flytja frá Ólafsvík hingað á Sauðárkrók með börnin okkar þrjú. Enda þótt ég hafi verið orðinn nokkuð hagvanur hér var þetta stór ákvörðun fyrir okkur Soffíu Elínu eiginkonu mína. Hjálpsemi og stuðningur hefur verið á hverju horni frá fyrsta degi og fjölskyldan öll hvílt í hlýjum faðmi þessa trausta samfélags íbúanna – og nýju nágrannanna. Um leið og ég þakka samstarfsfólki og stjórn FISK Seafood fyrir frábært samstarf á nýliðnu ári færi ég samfélaginu í Skagafirði bestu þakkir fyrir hönd okkar fjölskyldunnar.“

 

 

Deila: