Ýsa í sítrónusósu

418
Deila:

Nú er kjötneysla hátíðanna að baki og kominn tími til að borða léttari og hugsanlega hollari mat. Þá kemur ýsan strax upp í hugann, enda sérlega góður matfiskur. Uppskriftin er einföld og tekur álíka langan tíma í matreiðslu og að sjóða kartöflurnar. Fínasti kvöldverður fyrir neytendur á öllum aldri.

Innihald:

800g ýsa roð- og beinlaus í fjórum jöfnum bitum
3 msk. bráðið smjör
1 sítróna, safi og rifinn börkur
10 kapersber
1 tsk. sjávarsalt
1 tsk. reykt paprikuduft
1 tsk. hvítlauksduft
1 tsk. laukduft
¼ tsk. nýmalaður svartur pipar
3 msk. ólívuolía
nokkur blöð af ferskri basilíku til skrauts
sítrónusneiðar til skrauts

Aðferð:

Skolið ýsubitana og þerrið þá síðan vel með pappírsþurrku og leggið til hliðar. Blandið saman í skál bræddu smjöri, sítrónusafa og berki, og ½ tsk. af salti. Kreistið kapersberin út í. Hrærið vel saman og smakkið til, saltið meira ef þess er þörf.
Takið til aðra skál og blandið þar saman ½ tsk. af salti, paprikudufti, laukdufti, hvítlauksdufti og svörtum pipar. Veltið fiskbitunum upp úr kryddblöndunni þannig að hún jafnist vel á þá.

Hitið olíuna á stórri pönnu og þegar hún er orði snarpheit steikið þá fiskinn á báðum hliðum þar til bitarnir eru orðnir fallega gullnir og dreypið smávegis af sítrónusósunni yfir, en geymið megnið af henni til að bera fram með fiskinum. Færið fiskinn upp á fat og hellið sósunni yfir. Stráið basilíkunni yfir og raðið sítrónusneiðunum á fatið. Berið fram með soðnum kartöflum og salati að eigin vali.

Deila: