Fóðurprammi sökk

389
Deila:

Fóðurpramminn Muninn, sem er í eigu Laxa fiskeldis, sökk á Reyðarfirði á fjórða tímanum í fyrrinótt. Enginn var um borð í prammanum og ekki er talið að öðrum sæfarendum stafi hætta af honum þar sem hann liggur á hafsbotni á um 40 metra dýpi á móts við vitann Grímu á Berunesi, ekki langt frá landi. Varðskipið Þór er á vettvangi samkvæmt frétt á ruv.is.

Í tilkynningu frá Löxum fiskeldi segir að talsvert af sjó hafi komist í prammann í vonskuveðri í gærkvöldi og hann þá farið að halla töluvert. Hvorki eldisfiskum né kvíum hafi þó stafað hætta af og engin svartolía verið um borð, en um 10.000 lítrar af dísilolíu verið í tönkum skipsins. Varðskipið Þór var kallað til aðstoðar við björgunar- og mengunarvarnaraðgerðir og var það enn á slysstað í gær.

Muninn er 25 metra langur og 12 metra breiður prammi. Samkvæmt Landhelgisgæslunni er lítil hætta á að hann reki frá slysstað þar sem hann er kyrfilega festur við botninn með akkerum.

Ekki liggur fyrir hvers vegna pramminn sökk, en aðstæður eru og hafa verið leiðinlegar á slysstað; stífur vindstrengur, talsverður sjógangur og napurt frost, og hafa menn verið talsvert í því að berja ís af öðrum búnaði þar eystra í nótt.

 

Deila: