Niðurstöður loðnumælinga liggja fyrir í vikunni

134
Deila:

Lokið er leiðangri fimm skipa með það að markmiði að mæla stærð hrygningarstofns loðnu. Skipin hafa haldið til heimahafna.

Loðna fannst með landgrunnskantinum norðan Íslands allt austur að Langanesdýpi. Ekkert var að sjá á grunnum né með kantinum austan lands. Að megninu til fékkst hrygningarloðna í togsýnum. Niðurstöður mælinganna munu liggja fyrir í vikunni.

Hafís vestan við land hafði veruleg áhrif á mælinguna. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson var vestast og kom ísinn alveg í veg fyrir mælingar við og utan við landgrunnsbrúnina á Vestfjarðamiðum. Þar varð vart við loðnu í desember. Eins lenti Bjarni Sæmundsson í ís norður af Vestfjörðum. Að öðru leyti voru aðstæður til mælinga með ágætum.

Fyrirhugað er að endurtaka mælingar og þá helst þegar hagstæðar aðstæður verða m.t.t. hafíss og veðurs. Rannsóknaskipin verða tilbúin í verkefnið en ekki hefur verið ákveðið hvernig þátttöku annara skipa verður háttað. Miðað við veðurspár og núverandi útbreiðslu hafíss verða góðar aðstæður til mælinga í fyrsta lagi seinni part viku.

Leiðarlínur skipanna fimm sem tóku þátt í loðnumælingum í vikunni ásamt legu hafís (sjá https://skip.hafro.is/)

 

Deila: