Hafís torveldar veiðar á Vestfjarðamiðum

104
Deila:

Ísfisktogarinn Helga María AK er nú staddur í Víkurálnum eftir að hafa komið með um 100 tonna afla til Ísafjarðar. Friðleifur Einarsson er skipstjóri og hann segir hafís víða hafa torveldað veiðar og jafnvel komið í veg fyrir þær á heilu veiðisvæðunum.
,,Við vorum í kantinum norður af Patreksfirði og í Þverálnum. Þar var hafís ekki til vandræða. Við gátum ekki farið á Halamið og önnur veiðisvæði vegna hafíss. Sem betur fer virðist hafísinn heldur vera að fjarlægjast en í gær var hann bara um 10 til 15 mílur frá Straumnesi,” segir Leifur í samtali á heimasíðu Brims, en hann segir að hafísinn sé mjög mikill þetta árið. Auk þess, sem hafísinn torveldar allar veiðar, kemur hann í veg fyrir loðnumælingu á hafsvæðinu milli Vestfjarða og Grænlands.
,,Það var annar ágætur afli þar sem við gátum verið að veiðum og uppistaðan í þessum afla var þorskur.”
Er rætt var við Leif var áhöfnin búin með eitt hol í Víkurálnum. Aflinn var ekki nema fjögur tonn enda kom trollið upp rifið.
,,Þetta var svona bland í poka í þessu fyrsta holi. Við fengum ufsa, ýsu og karfa. Hér er hafísinn ekki að þvælast fyrir og við látum bara reyna á veiðarnar. Við eigum að landa næst á föstudaginn og það verður að koma í ljós hvort það verði í Reykjavík eða annars staðar,” sagði Friðleifur Einarsson.

 

 

Deila: