Skipstjórinn játaði sök

126
Deila:

Sveinn Geir Arnarsson, skipstjóri á Júlíusi Geirmundssyni, játaði sök þegar mál lögreglustjórans á Vestfjörðum gegn honum var þingfest fyrir Héraðsdómi Vestfjarða í dag. Þetta kemur fram á visir.is

Sveini er gert að greiða 750 þúsund króna sekt og sæta sviptingu skipstjórnarréttinda í fjóra mánuði frá og með deginum í dag.

Tuttugu og tveir skipverjar af tuttugu og fimm sýktust af kórónuveirunni um borð í frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni í október síðastliðnum.

Sveinn var ákærður fyrir að brjóta gegn annarri málsgrein 34. greinar sjómannalaga, en þar segir:

„Ef ástæða er til að ætla að skipverji sé haldinn sjúkdómi sem hætta stafar af fyrir aðra menn á skipinu skal skipstjóri láta flytja sjúklinginn í land ef eigi reynist unnt að verjast smithættu á skipinu.“

Sjópróf fóru fram í Héraðsdómi Vestfjarða í nóvember þar sem kom meðal annars í ljós að nokkrir skipverjar voru enn óvinnufærir vegna eftirkasta Covid. Við lögreglurannsóknina voru skipstjóri, forsvarsmenn Hraðfrystihússins Gunnvarar, sem á skipið, og skipverjarnir yfirheyrðir.

 

Deila: