Vinnsla hafin í frystihúsinu á Seyðisfirði

126
Deila:

Vinnsla er hafin í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði en hún féll niður þegar stóra skriðan féll þar 18. desember sl. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi í gær við Ómar Bogason hjá frystihúsinu og spurði fyrst hvort fólk væri ekki ánægt með að geta hafið störf að nýju.

„Jú, það má með sanni segja. Fólk er afskaplega ánægt með að lífið sé aftur að færast í fyrra horf. Við fengum heitt vatn frá fjarvarmaveitunni í húsið í gær og þá var hafist handa við að þrífa og allt var gert spikk og span. Gullver NS kom síðan í morgun með tæp 100 tonn af blönduðum afla þannig að ekki skortir hráefnið. Nú landar Gullver við fiskvinnslubryggjuna en síðast þurfti hann að landa við Strandarbakka vegna þess að ekki var fært í gegnum skriðuna. Fyrstu dagana verður starfsfólkið flutt með rútu í gegnum skriðusvæðið að frystihúsinu, en reynt er að takmarka umferðina þar sem mest vegna þess að unnið er að því að breikka veginn í gegn og hreinsa svæðið,“ segir Ómar.

 

Deila: