Árið endaði með stæl

166
Deila:

Útflutningsverðmæti eldis- og landbúnaðarafurða nam samanlagt 4,8 milljörðum króna í desember samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti sem birtar voru í gærmorgun. Það er 75% aukning í krónum talið frá desember 2019 en um 58% aukning í erlendri mynt. Farið er yfir stöðuna á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Þar sem um er að ræða fyrstu bráðabirgðatölur um vöruskipti í desember, liggur ekki fyrir sundurliðun á útflutningsverðmætum eldis- og landbúnaðarafurða, einungis samanlagt verðmæti þeirra. Á síðustu árum hafa verið fluttar út landbúnaðarafurðir fyrir tæpan einn milljarð króna að jafnaði í desember. Hafi útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða verið á svipuðu róli í desember 2020, eru horfur á að útflutningsverðmæti eldisafurða hafi verið í kringum 3,8 milljarðar króna í mánuðinum. Verði það raunin er um að ræða stærsta mánuð frá upphafi í útflutningi á eldisafurðum og því hefur hið fordæmalausa ár 2020 endað með stæl.
Met á fordæmalausu ári
Reynist útflutningsverðmæti eldisafurða 3,8 milljarðar króna í desember 2020, er útflutningsverðmæti afurðanna á árinu í heild rúmir 29 milljarðar króna, sem er met. Í krónum talið er um tæplega 17% aukningu að ræða á milli ára en um rúmlega 5% aukningu í erlendri mynt. Eins og við höfum fjallað um á Radarnum, þá hefur fiskeldi vissulega ekki farið varhluta af því ástandi sem uppi hefur verið í heimsbúskapnum vegna COVID-19 og tilherandi sóttvarnaraðgerðum. Áhrifin hafa verið hvað sýnilegust á afurðaverð en aukin framleiðsla hefur náð að vega upp á móti, eins og sjá má í grein sem birt var á Radarnum fyrr í vikunni.

Afar jákvæð tíðindi á erfiðum tímum
Ástandið í heimsbúskapnum vegna COVID-19 og tilheyrandi sóttvarnaraðgerða hefur komið niður á nær öllum útflutningsgreinum, þó áhrifin séu vissulega mismikil á milli atvinnugreina. Á árinu 2020 voru fluttar út vörur fyrir um 620 milljarða króna. Það er rúmlega 3% samdráttur í krónum talið frá árinu 2019 en 13% samdráttur í erlendri mynt. Án útfluttra skipa og flugvéla er samdrátturinn aðeins minni, eða rúm 9% í erlendri mynt. Hefur útflutningsverðmæti nánast allra undirflokka dregist saman á milli ára, sem hvort tveggja hefur mátt rekja til samdráttar í útfluttu magni og lækkunar afurðaverðs.

Ástandið á árinu 2020 dregur vel fram hversu mikilvægt það er að útflutningur sé sem fjölbreyttastur. Verður sjaldan of oft kveðið, að því fleiri sem stoðir útflutnings eru, því minni verða áhrifin á hagkerfið og þar með á hagsæld þjóðarinnar, þegar í bakseglin slær hjá einstaka útflutningsgreinum. Fiskeldi er ein fárra útflutningsgreina sem var í vexti í fyrra og aflaði meiri gjaldeyristekna á árinu en árið á undan. Vissulega er greinin enn fremur smá í sniðum miðað við stóru útflutningsgreinarnar þrjár, en þar felast mikil tækifæri til verðmætasköpunar og aukinnar atvinnu eins og fjallað hefur verið um á Radarnum.

 

Deila: