Fiskaflinn milljón tonn á síðasta ári

149
Deila:

Heildarafli ársins 2020 var 1.021 þúsund tonn samkvæmt bráðabirgðatölum sem er 3% minna en árið 2019. Rúmlega helmingur aflans var uppsjávarafli, þar af var kolmunni 244 þúsund tonn, makríll 152 þúsund tonn og síld 134 þúsund tonn. Engin loðna veiddist árin 2019 og 2020. Botnfiskafli árið 2020 var 463 þúsund tonn, þar af var þorskur 277 þúsund tonn en ýsa, ufsi og karfi rúm 50 þúsund tonn hver tegund.

Magn uppsjávarafla var nær óbreytt miðað við árið 2019 og magn botnfiskafla dróst saman um 4% miðað við fyrra ár. Flatfiskafli var nær óbreyttur frá fyrra ári, eða 23 þúsund tonn. Skelfiskafli dróst saman um helming og var tæplega 5 þúsund tonn.

Aflamagn í desember 2020 voru tæplega 74 þúsund tonn og jókst um 16% miðað við desember 2019. Uppsjávarafli jókst úr tæpum 34 þúsund tonnum í desember 2019 í 41 þúsund tonn í desember 2020 sem er 22% magnaukning í desembermánuði. Botnfiskafli var um 32 þúsund tonn og þar af var þorskur rúm 18 þúsund tonn, um 10% meira en í desember 2019.

Magnvísitala landaðs afla í desember er 61,8 sem bendir til þess að aflaverðmæti verði 10,8% meira en í desember 2019.

Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu Hagstofu Íslands eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Fiskafli
  Desember Janúar-desember
2019 2020 % 2019 2020 %
Fiskafli á föstu verði
Vísitala 55,7 61,8 10,8
Fiskafli í tonnum
Heildarafli 63.425 73.640 16 1.048.202 1.020.594 -3
Botnfiskafli 28.909 31.509 8 481.512 463.175 -4
Þorskur 16.869 18.494 10 273.022 276.963 1
Ýsa 3.315 5.144 55 57.918 54.103 -7
Ufsi 4.154 2.493 -40 64.697 50.429 -22
Karfi 3.399 3.718 9 53.529 52.065 -3
Annar botnfiskafli 1.172 1.354 16 32.346 29.616 -8
Flatfiskafli 764 1.064 39 22.232 23.013 4
Uppsjávarafli 33.610 40.948 22 534.373 529.427 -1
Síld 3.662 1.670 -54 137.936 134.167 -3
Loðna 0 0 0 0
Kolmunni 29.938 39.278 31 268.351 243.738 -9
Makríll 9 0 -100 128.085 151.521 18
Annar uppsjávarfiskur 1 0 -100 1 1 -11
Skel-og krabbadýraafli 154 119 -23 10.082 4.973 -51
Annar afli 0 2 3 5 65

 

Deila: