Einar ráðinn til Hábrúnar

84
Deila:

Einar Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fiskeldisfyrirtækisins Hábrúnar í Hnífsdal en fyrirtækið starfrækir regnbogaeldi í Skutulsfirði og fiskvinnslu í Hnífsdal. Hjá fyrirtækinu starfa nú 17 manns og er það eitt elsta starfandi sjókvíaeldisfyrirtæki á Íslandi með nærri tveggja áratuga reynslu af eldi við Ísafjarðardjúp.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hábrún.

Einar Guðmundsson er fertugur að aldri, fæddur og uppalinn í Bolungarvík og nýútskrifaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Bifröst. Hann hefur starfað sem skipstjóri síðustu tíu ár ásamt því að reka útgerð með fjölskyldu sinni í Bolungarvík. Einar situr í stjórn Fiskmarkaðs Vestjarða og var formaður hafnarstjórnar Bolungarvíkur í fjögur ár. Hann hefur víðtæka þekkingu á rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og passar einkar vel inn í starfsmannahóp Hábrúnar sem sér fram á meiri vöxt fyrirtækisins innan fárra ára. Aðrir lykilstarfsmenn Hábrúnar eru Davíð Kjartansson, rekstrarstjóri, Jóhanna Ósk Halldórsdóttir, sölustjóri, og Ásgeir Sólbergsson, skrifstofustjóri.

Regnbogaeldi Hábrúnar nær aftur til ársins 2013 þegar fyrstu seiðin fóru í sjó en veruleg framleiðsluaukning varð árið 2017. Eldið byggir þó á áratugalangri reynslu af sjókvíaeldi við Ísafjarðardjúp, einkum þorskeldi. Hábrún er með leyfi fyrir 700 tonna eldi af regnbogasilungi en hefur jafnframt sótt um leyfi Skipulagsstofnunar til verulegrar stækkunar til að styrkja stoðir fyrirtækisins enn frekar.

Líkt og hjá flestum fyrirtækjum í sjávarútvegi reyndist síðasta ár mjög krefjandi fyrir Hábrún vegna Covid-19. Í dag stendur fyrirtækið fastari fótum og hefur salan verið nokkuð góð undanfarið þrátt fyrir krefjandi tíma. Hluthafahópur Hábrúnar samanstendur einkum af heimamönnum og öðrum fjárfestum sem hafa sterk tengsl vestur á firði.

 

Deila: