Samfélagsskýrsla SVN aðgengileg á heimasíðu félagsins

115
Deila:

Seint á síðasta ári gaf Síldarvinnslan út samfélagsskýrslu fyrirtækisins fyrir árið 2019. Skýrslan er aðgengileg á heimasíðu fyrirtækisins (svn.is). Um er að ræða fyrstu samfélagsskýrsluna sem Síldarvinnslan gefur út en hún er liður í að auka gegnsæi og greina frá ýmsum þáttum starfseminnar sem ekki eru endilega metnir í magni eða fjármunum. Skýrslan er gerð samkvæmt alþjóðlega staðlinum Global Reporting Initiative (GRI).

Samfélagsskýrslunni er ætlað að bæta vinnubrögð og auka umhverfisvitund. Í skýrslunni er gerð grein fyrir starfsemi fyrirtækisins og eins eru birtar upplýsingar er varða umhverfis- og samfélagsmál. Í skýrslunni segir eftirfarandi um starfsemi Síldarvinnslunnar:

„Síldarvinnslan einsetur sér að vera fyrirmynd um ábyrga og arðbæra viðskiptahætti og vinna í sátt við umhverfi og samfélag. Síldarvinnslan kappkostar að umgangast lífríki hafsins af virðingu og nýta sjávarauðlindina með sjálfbærum hætti. Lögð er áhersla á að fylgja ráðgjöf vísindanna, þar sem stuðst er við bestu vitneskju hverju sinni, til að sjálfbærni fiskistofna sé tryggð til framtíðar og komandi kynslóðir fái notið góðs af. Við veiðar og vinnslu er lögð áhersla á að lögum og reglum sé fylgt í hvívetna.

Síldarvinnslan framleiðir afurðir sínar eftir viðurkenndum stöðlum sem tryggja eiga sjálfbærni, rekjanleika og heilnæmi afurðanna. Allar starfsstöðvar félagsins eru undir eftirliti Matvælastofnunar (MAST). Félagið er með vottuð gæðastjórnunarkerfi sem styðja við þessi markmið.“

Í skýrslunni er ítarlega farið yfir þau umhverfisáhrif sem starfsemi Síldarvinnslunnar veldur og þá einkum losun gróðurhúsalofttegunda. Jafnframt er farið yfir hvað áunnist hefur á sviði umhverfismálanna á undanförnum árum. Þar er meðal annars getið um ný og umhverfisvænni fiskiskip og raforkuvæðingu fiskimjölsverksmiðja.

Ítarlega er fjallað um starfsmannamál og kemur þar til dæmis fram að fyrsta jafnlaunaúttektin hjá fyrirtækinu var framkvæmd árið 2018 og fannst þá enginn óútskýrður launamunur. Viðhaldsúttekt var síðan framkvæmd árið 2019 og varð niðurstaðan hin sama.

Í skýrslunni er einnig fjallað um þætti eins og öryggi og heilsu starfsfólksins, fræðslu og uppbyggingu mannauðs, mannréttindi og kjarasamninga. Þá kemur skýrt fram að vilji fyrirtækisins er að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og nærumhverfi sitt. Fyrirtækið veitir margvíslega styrki til góðra málefna og styður við bakið á ýmsum samtökum og stofnunum. Þá hefur verið lögð áhersla á samstarf við menntastofnanir og stuðlað að fræðslu um sjávarútveginn á meðal ungs fólks.
Er fólk eindregið hvatt til að kynna sér efni samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar á heimasíðu fyrirtækisins.

 

 

Deila: