Samdráttur í fyrsta sinn í mörg ár

214
Deila:

Útflutningur Norðmanna á þorski á síðasta ári dróst saman í fyrsta sinn í mörg ár. Skýringin liggur að miklu leyti í þeim áhrifum sem Covid-19 hefur haft á heimsbyggðina. Veitingahúsin lokuðu og neyslan fluttist inn á heimilin, en ekki í nægilegum mæli til að vega upp á móti lokunum í veitingageiranum. Lágt gengi norsku krónunnar hjálpaði til með því að fleiri norskar krónur skiluðu sér heim þrátt fyrir lækkun á afurðaverði í erlendri mynt.

Alls fluttu Norðmenn utan 172.000 tonn af þorski á síðasta ári. Heildarverðmætið var 145 milljarðar íslenskra króna. Magnið lækkaði um 4% og verðmætið sömuleiðis miðað við árið 2019.

Útflutningur ferskra afurða féll nánast frá og með fyrsta degi faraldursins. Salan færðist frá veitingahúsum inn á stórmarkaðina og þaðan inn á heimilin og því varð að bjóða upp á afurðir með lengra geymsluþol, það er fryst flök. Vegna þess hélst verð á frystum flökum betur en á öðrum afurðum.

Erfitt í saltfiskinum

83.400 tonn af þurrkuðum saltfiski voru flutt utan í fyrra. Verðmætið var 65 milljarðar íslenskra króna. Magnið féll um 9% og verðmætið um 10%. Sala til Brasilíu dróst töluvert saman og eftirspurn í Portúgal minnkaði. Kórónaveiran herjaði af miklum krafti á Brasilíu og að auki lækkaði verð á olíu sem leiddi til gengislækkunar í landinu. Litlar birgðir af þurrkuðum saltfiski í landinu og páskar með fyrra falli leiddu þó til aukins útflutnings í desember miðað við sama mánuð 2019.
Á hinn bóginn hefur gengið vel að flytja saltaðan ufsa til eyja í Karabíska hafinu og varð síðasta ár metár í þeim efnum.

Mikill samdráttur var á útflutningi á skreið í fyrra. Ástæðan er lokun markaða á Ítalíu vegna faraldursins og erfiðleika með flutninga þangað. Alls fóru 3.900 tonn af skreið utan í fyrra að verðmæti 10,4 milljarðar íslenskra króna. Magnið féll um 9% og verðmætið um 14%

Hvað með 2021?

Leyfilegur hámarksafli helstu nytjategunda, þorsks, ýsu og ufsa, í heiminum er samtals 11% meiri á þessu ári en því síðasta.  Aukningin er fyrst og fremst í Noregi og Rússlandi.  Sé litið á þær fiskitegundir sem, eru í mestri samkeppni við þessar tegundir, einkum alaskaufsa, er þess vænst að framboðið aukist um 4% í ár. Það stefnir því í vaxandi framboð á fiski á mörkuðum þar sem enn ríkir óvissa vegna faraldursins.

Það eykur svo á erfiðleika norska sjávarútvegsins að í lok apríl fellur niður umhverfisvottun MSC á veiðar á þorski og ýsu innan 12 mílna frá landi. Á síðustu árum hafa um 50% þorskaflans og 30% af ýsunni verið tekin innan 12 mílnanna. Þetta á fyrst og fremst við ferskan fisk, sem landað er af minni skipum og bátum. Vertíðinni verður hins vegar að langmestu leyti lokið fyrir apríl lok svo áhrifin af niðurfellingu vottunarinnar koma ekki fram nema að litlu leyti fyrr en á vertíð næsta árs. Vandinn við að missa umhverfisvottunina er sá, að sífellt fleiri kaupendur krefjast hennar við innkaup.

Þess vegna verða útflytjendur að finna nýja markaði fyrir fiskafurðir án vottunar. Það gæti leitt til verðlækkana og erfiðleika með að finna réttu afurðirnar fyrir nýja markaði.

Deila: