Björgum Blátindi

139
Deila:

 Stjórn Sambands íslenskra sjóminjasafna tekur heilshugar undir með Hollvinafélögum Húna II á Akureyri og Magna í Reykjavík að skora á framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja að falla frá samþykkt um að farga bátnum Blátindi VE 21. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Sambands íslenskra sjóminjasafna um Blátind VE 21. Ályktunin fer hér á eftir:

„Vestmannaeyjar hafa verið ein stærsta verstöð landsins um aldir enda er þaðan skammt í gjöful fiskimið. Eitt af því sem prýddi bæinn var  Blátindur, sem smíðaður var í Dráttarbraut Vestmannaeyja árið 1947, 45 rúmlestir að stærð, sléttsúðaður eikarbátur, alþilja; meistari: Gunnar Marel Jónsson. Þegar Blátindi var hleypt af stokkunum var hann meðal stærstu og glæsilegustu fiskiskipa í Vestmannaeyjum. Hann var gerður út frá Eyjum til ársins 1959 og síðan frá ýmsum verstöðvum vestan og norðan lands. Þá var Blátindur notaður sem varðskip í Faxaflóa um skeið og var þá búinn fallbyssu.

Árið 1993 lá Blátindur í reiðileysi við bryggju norður í landi og fékkst þá dreginn til Eyja af Landhelgisgæslunni. Þar var hann settur í slipp en ekkert hugsað um hann í nokkur ár. Árið 1998 fóru fram umræður um bátinn og vildu sumir farga honum. Það sem mælti gegn því var að Blátindur væri eini vélbáturinn smíðaður í Eyjum á fyrri hluta 20.  aldar sem eftir væri og í óbreyttu ástandi, jafnvel með sama stýrishúsinu. Auk þess hefði báturinn smíðalag sem einkennandi var fyrir vertíðarbáta smíðaða í Eyjum.

Í september 2001 var stofnað áhugamannafélag um endurbyggingu Blátinds og ákveðið að hraða framkvæmdum svo báturinn yrði afhentur Menningarmálanefnd Vestmannaeyja fullbúinn næsta sjómannadag til varðveislu og sýningar. Það gekk eftir og var sérlega myndarlega staðið að endurbyggingu bátsins. Vorið 2018 var Blátindi komið fyrir hjá Skansinum og átti það að vera endanlegur staður fyrir hann. Hann naut sín vel í fallegu umhverfi en staðurinn var óneitanlega ótraustur, enda hélst báturinn þar ekki á sínum stað nema í hálft annað ár. Næsta skref átti að vera að koma honum í sýningarhæft ástand.

En nú er sú áætlun fyrir bí. Blátindur slitnaði upp frá bryggju í óveðri og sökk í Vestmannaeyjahöfn í febrúar 2020 og var í kjölfarið dreginn á land. Mikið tjón varð á honum eins og vænta mátti.  Sérfræðingur var nýlega fenginn til að meta kostnað við endurbyggingu skipsins. Sú áætlun er afar lausleg, en  skv. henni er kostnaður við að koma Blátindi í sýningarhæft ástand ekki undir hundrað milljónum króna. Jafnframt segir í skýrslu hans að mun dýrara sé að gera Blátind siglingarhæfan, áætlað að sá kostnaður yrði í kringum tvö hundruð milljónir króna. Það sem skortir í þessu samhengi er verk- og kostnaðaráætlun sem rökstyður þær tölur sem fram koma í skýrslunni. Auk þess heldur sérfræðingurinn því fram að verkið sé sérhæft og efniviður illfáanlegur. Því mótmælir stjórn SÍS – einfalt er að kaupa góðan efnivið til bátasmíða og -viðgerða af nágrannaþjóðum okkar. Ennfremur  starfa tréskipasmiðir á Íslandi og víða hefur verið staðið vel og faglega að endursmíði gamalla tréskipa. Má í því sambandi til dæmis benda á Húna II og fjölmörg skip á Húsavík, auk þess sem sjálfstæðir bátasmiðir hafa staðið að viðgerðum og endursmíði trébáta í einkaeigu. Áætlaður kostnaður við förgun skipsins er sagður vera 5 milljónir króna en þeirri tölu fylgir ekki kostnaðaráætlun frekar en öðru í skýrslunni.

Niðurstaða framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja virðist vera að förgun sé eina aðgengilega lausnin. 100 milljónir séu allt of há upphæð til að ráðið sé við hana og þá enn síður 200 milljónir. Ráðinu er þó ljóst að allar ákvarðanir varðandi framtíð Blátinds eru háðar samþykki Minjastofnunar. Blátindur er friðaður á grundvelli aldurs, skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012, og heyrir því undir Minjastofnun Íslands.

Málinu virðist stillt upp á þann veg að sem augljósast sé að farga þurfi Blátindi.

  1. Ábyrgðin á bátnum virðist sett á framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja sem ólíklegt er að hafi hlutverk á sviði minjavörslu og enn ólíklegra er að sé fært um að leggja út háar upphæðir á því sviði.
  2. Stillt er upp kostnaðartölum sem eru nógu háar til að gera verkefnið algerlega óvinnandi. Þær virðast þó ekki byggðar á verk- eða kostnaðaráætlunum.
  3. Því er haldið fram að verkkunnáttu vanti og efniviður sé illfáanlegur – en slíkar staðhæfingar er auðvelt að hrekja.

Augljós niðurstaða framkvæmda- og hafnarráðs virðist því vera förgun skipsins.

Í þessu eins og öðru gildir það að vilji er allt sem þarf. Ein hugmynd sem varpað hefur verið fram er að setja Blátind í gömlu slökkvistöðina í Vestmannaeyjum sem nú mun verið að flytja úr. Þar yrði sett upp sýning um Blátind og sögu hans ásamt sögu skipasmíða og útgerðar í Vestmannaeyjum eftir 1945. Viðgerð á bátnum gæti verið mikilvægur partur af sýningunni og mætti fara fram eftir því sem fjármunir leyfa, jafnvel í allmörg ár. Kostnaður við það væri að sjálfsögðu einhver en ekkert í nánd við þær tölur sem fyrr hafa verið nefndar. Ennfremur mætti sækja um styrki til viðgerðarinnar og líklegt er að sjálfboðaliðar fengjust til verksins að einhverju leyti.

Stjórn SÍS hvetur framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja til að endurskoða ákvörðun sína um förgun skipsins og huga að sögulegu mikilvægi þess og varðveislugildi.“
Undir ályktunina skrifa
Helgi Máni Sigurðsson, Borgarsögusafni
Anita Elefsen, Síldarminjasafni Íslands
Inga Hlín Valdimarsdóttir, Byggðasafninu Hnjóti

 

Deila: