Á veiðum í vitlausu veðri

87
Deila:

Frystitogarinn Vigri RE er nú að veiðum á Víkurálssvæðinu í skítaveðri og segir skipstjórinn, Árni Gunnólfsson, að það hafi verið sannkölluð leiðindatíð upp á hvern dag frá því að 690 tonnum af fiski var millilandað í Reykjavík 20. janúar sl.
,,Þetta eru mikil viðbrigði því það var einmunablíða fyrstu 17 daga veiðiferðarinnar. Við fórum frá Reykjavík í þennan fyrsta túr ársins þann 2. janúar og byrjuðum veiðar á suðvesturmiðum, á Tánni og Reykjanesgrunni. Þar var fín veiði. Við færðum okkur svo á Vestfjarðamið og fengum góðan afla. M.a. fórum við á Hampiðjutorgið til að reyna við grálúðu en þar var miklu meira af þorski en hentaði okkur,” segir Árni í samtali við heimasíðu Brims.

Eftir millilöndunina í Reykjavík var komin bræla á Vestfjarðamiðum. Suðvesturmið urðu því fyrir valinu.
,,Við reyndum fyrir okkur á Reykjanesgrunni en veðrið versnaði þar skömmu síðar og því var um fátt annað að ræða en að skella sér aftur norður á Vestfjarðamið. Við urðum að stoppa í skjóli við Snæfellsjökul til að bíða af okkur versta veðrið á Vestfjarðamiðum og tækifærið var notað til að veiða nokkur tonn af gullkarfa,” segir Árni en er rætt var við hann var Vigri kominn á svokallaðan Kattarhrygg í Víkurálnum.
,,Hér er leiðindaveður en aflinn er ágætur þegar hægt er að vera að. Það er búið að vera brjálað veður í lengri tíma á Halanum en spáin er góð fyrir morgundaginn og föstudaginn. Við munum því halda áfram norður með kantinum og stefnan er sett á að veiða sem mest af ufsa. Við erum nú komnir með um 200 tonn af fiski eftir millilöndunina og höfum einhverja daga til að bæta við aflann. Stefnan er sett á löndun í Reykjavík á þriðjudaginn í næstu viku,” sagði Árni Gunnólfsson.

Deila: