Gratínerað góðmeti

124
Deila:

Það er fátt betra í matinn en góður fiskur. Og alltaf er hægt að vera með tilbreytingu í matseld með því að finna nýjar uppskriftir eða breyta þeim gömlu. Það ætti því enginn að fá leið á því að borða fisk. Nú setjum við inn uppskrift að gratíneruðum fiskrétti, sem byggist á ýsu og bleikju, en alltaf er hægt að velja aðrar fiskitegundir eftir smekk og því sem auðvelt er að nálgast. Uppskriftin er fyrir fjóra.

Innihald:

400g roð- og beinlaus ýsa
400g roð-og beinlaus og fituhreinsuð bleikjuflök
300g soðin hrísgrjón
lítill blómkálshaus
½ piparostur, rifinn
500 ml. rjómi
½ gul og ½ rauð paprika
2 ½  tsk. karrý að eigin vali (Við notuðum frábært karrý sem við fengum á Balí)
salt, pipar, arómat og sellerísalt
½ teningur grænmetiskraftur
200g rifinn ostur
ólívuolía

Aðferð:

Skolið fiskmetið og skerið í nokkra bita. Berið ólívuolíu í botninn á hæfilegu eldföstu móti og jafnið grjónunum í botninn. Raðið fiskbitunum ofan á grjónin og kryddið með salti, svörtum pipar og sellerísalti. Skerið grænmetið niður og mýkið í olíu á pönnu. Raðið því síðan yfir fiskinn.
Hellið 250 ml. af rjóma á sömu pönnu og hrærið piparostinn út í þar til hann er orðinn bráðinn. Bætið þá því sem eftir er að rjómanum út í hrærið karrýið og grænmetisteninginn út í og látið hitna að suðu.Hellið þá sósunni yfir fiskinn og stráið rifna ostinum yfir. Bakið við 180° C í um 25 mínútur.
Beri réttinn fram með góðu brauði og fersku salati að eigin vali.

Deila: