Ekkert skip með meiri loðnukvóta en 2.000 tonn

173
Deila:

Ekkert íslenskt fiskiskip fær meiri loðnukvóta í vetur en 2.000 tonn. Fiskistofa hefur úthlutað heimildum íslenskra fiskiskipa til loðnuveiða miðað við útgefinn heildarkvóta upp á 61.000 tonn. Stærsti hluti kvótans eins og er fellur í skaut Norðmanna vegna samninga um þorskveiðar okkar í Smugunni og hlutdeildar þeirra í heildarveiðinni. Því koma aðeins rúm 19.000 tonn til skipta milli íslensku skipanna.

Heimaey VE fær mesta úthlutun, 2.000 tonn. Sjö önnur skip fá meira en þúsund tonn. Það eru Sigurður VE með 1.807 tonn, Venus NS með 1.778 tonn, Björgvin EA með 1.751 tonn, Víkingur Ak með 1.649 tonn, Beitir NK með 1.523 tonn, Börkur NK með 1.522 tonn og Ísleifur VE með 1.095 tonn.

Verði þetta niðurstaðan er ljóst að töluvert verður um flutning aflaheimilda milli skipa, því kvótinn á hvert skip dugir varla fyrir einni veiðiferð, nema tekinn sé slatti vegna hrognatöku.
Nýlokið er yfirferð átta skipa yfir loðnumiðin, en niðurstöður liggja ekki fyrir.

Deila: