Fjölnir farinn til veiða

125
Deila:

Línubáturinn Fjölnir GK hélt til veiða úr heimahöfn í Grindavík klukkan 14.30 í dag. Níu skipverjar á Fjölni voru í sóttkví um borð frá því í gær, eftir að skipsfélagi þeirra greindist með kórónuveiruna í seinni skimun, sem hann þurfti að fara í eftir að hafa verið í útlöndum. Skipverjinn fór um borð í skipið í gær áður en hann fékk niðurstöðu úr seinni skimun, og rauf þar með sóttkví. Fyrir vikið var hætt við að fara í róður þar til ný greining fengist.

Greiningin lá fyrir um hádegið í dag og reyndist skipverjinn sem greindist með COVID-19 í gær vera með gamalt smit, og það er því ekki virkt. Maðurinn er pólskur og var að koma frá heimalandinu þegar hann rauf sóttkví. Umræddur skipverji er um borð í veiðiferðinni.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn var spurður um málið á upplýsingafundi Almannavarna í morgun.

„Svona mál eru á borði lögreglunnar á staðnum þannig að þetta mál er þá væntanlega rannsakað hjá lögreglunni á þessum stað. Og það hefur bara verið farið í þær sektarheimildir sem eru og málunum lokið með þeim hætti og ég geri ráð fyrir að það sama verði með þetta,“ sagði Víðir.
á myndinni er Fjölnir að fara út úr Grindavíkurhöfn í dag. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

 

Deila: