Lítið af ósæskilegum efnum í íslenskum fiski

117
Deila:

Nú liggja fyrir niðurstöður vöktunar á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs fyrir árið 2020. Kerfisbundin vöktun hefur staðið yfir, með hléum, frá árinu 2003 og Matís ohf. Sér um gagnasöfnun og útgáfu á skýrslum vegna hennar. Slík efni reyndust í öllum tilfellum undir hámarksgildi.
Markmiðið með verkefninu er að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggis og heilnæmis og nýta gögnin við gerð áhættumats á matvælum til að tryggja hagsmuni neytenda og lýðheilsu. Verkefnið byggir upp þekkingargrunn um magn óæskilegra efna í efnahagslega mikilvægum tegundum og sjávarafurðum. Þetta er skilgreint sem langtímaverkefni þar sem útvíkkun og endurskoðun er stöðugt nauðsynleg.

Niðurstöður ársins 2020 sýna að öll sýni af sjávarafurðum til manneldis voru vel undir hámarksgildum ESB fyrir þrávirk lífræn efni og þungmálma. Þá reyndist styrkur svokallaðra ICES6-PCB efna vera lágur í ætum hluta sjávarfangs, miðað við hámarksgildi ESB samkvæmt reglugerð nr. 1259/2011. Sömuleiðis sýndu niðurstöðurnar að styrkur þungmálma, t.d. kadmíum (Cd), blý (Pb) og kvikasilfur (Hg) í íslenskum sjávarafurðum var alltaf undir hámarksgildum ESB.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér: Niðurstöður sívirkrar vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarfangi úr auðlindinni 2020

 

Deila: