„Enduðum árið með afar góðum fjórðungi“

146
Deila:

„Við enduðum árið með afar góðum fjórðungi þar sem tekjur voru 343 milljónir evra og rekstrarframlegð var yfir 15%. Við nutum meðvindar frá kaupunum á TREIF, en vöru- og þjónustuframboð þeirra var hluti af uppgjöri Marel frá byrjun fjórða ársfjórðungs og hafði jákvæð áhrif á bæði tekjur og framlegð. Staða pantana var góð í árslok og fjárhagsstaða Marel er sterk með hreinar skuldir undir eins árs EBITDA-framlegð.“

Svo segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, meðal annars um afkomu félagsins á síðasta ári.

„Horft um öxl, er mér efst í huga þakklæti til starfsmanna Marel, viðskiptavina okkar og samstarfsaðila sem allir hafa unnið að sama markmiði, að halda einni mikilvægustu virðiskeðju heims gangandi.

Á sama tíma og við höfum sett öryggi og velferð starfsmanna okkar og viðskiptavina í fyrsta sæti, höfum við mætt hverri áskorun með bjartsýni og þannig tryggt stöðugt framboð af öruggum og hagkvæmum matvælum sem eru framleidd á sjálfbæran hátt fyrir neytendur um heim allan.

Stafrænar lausnir og víðfeðmt sölu- og þjónustunet í öllum heimsálfum hafa á tímum heimsfaraldurs og ferðatakmarkana gert okkur kleift að þjónusta viðskiptavini í yfir 140 löndum. Skjótar ákvarðanir í byrjun árs lögðu grunninn að áframhaldandi nýsköpun og stöðugum rekstri. Við tryggðum hagstæða græna langtímafjármögnun fyrir félagið, við þéttum samstarf við birgja og fjárfestum í öryggisbirgðum af varahlutum og íhlutum, og fluttum allar hefðbundnar sölusýningar yfir á stafrænt form.

Við enduðum árið með afar góðum fjórðungi þar sem tekjur voru 343 milljónir evra og rekstrarframlegð var yfir 15%. Við nutum meðvindar frá kaupunum á TREIF, en vöru- og þjónustuframboð þeirra var hluti af uppgjöri Marel frá byrjun fjórða ársfjórðungs og hafði jákvæð áhrif á bæði tekjur og framlegð. Staða pantana var góð í árslok og fjárhagsstaða Marel er sterk með hreinar skuldir undir eins árs EBITDA-framlegð.

Afkoma ársins er vel ásættanleg þar sem hæst ber að mótteknar pantanir voru á pari við fyrra ár, en tekjur og rekstrarhagnaður lækkuðu um 4% á milli ára. Þjónustu- og varahlutatekjur hækkuðu nokkuð á milli ára og námu 40% af heildartekjum ársins.

Stafræn þróun er á ógnarhraða og betri nýting gagna og upplýsingatækni er nú þegar að umbylta virðiskeðju matvæla. Heimsfaraldurinn ýtir enn frekar undir fjárfestingar í sjálfvirkum, sveigjanlegum og sjálfbærum lausnum.

Marel hefur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi og hefur fyrst félaga í okkar atvinnugrein skuldbindið sig til setja sér markmið í loftslagsmálum byggð á vísindalegum grunni (Science Based Targets) og birta framgang þeirra í reikningum félagsins í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla (Task Force on Climate-Related Financial Disclosures – TCFD).

Gera verður ráð fyrir sveiflum á milli ársfjórðunga, sérstaklega nú á tímum umbreytinga og óvissu. Marel stendur sem fyrr við metnaðarfull markmið sín til meðallangs og lengri tíma, með áframhaldandi vexti og virðisaukningu,“ segir Árni Oddur.

Deila: