SVN færir Fjórðungssjúkrahúsinu göngu- og hlaupabretti a gjöf

206
Deila:

Nýverið var nýtt tæki tekið í notkun á endurhæfingardeild Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað. Tækið er göngu- og hlaupabretti ekki ósvipað brettunum á líkamsræktarstöðvum en það er með mjög nákvæmum hraðastillingum og hentar vel við endurhæfingu margra sjúklinga. Það var Síldarvinnslan sem færði endurhæfingardeildinni brettið að gjöf.

Anna Þóra Árnadóttir, yfirsjúkraþjálfari á endurhæfingardeildinni, segir að tækið hafi þegar sannað sig. „Við notum tækið sérstaklega fyrir sjúklinga sem ekki geta staðið í fæturna af sjálfsdáðum og það hefur sýnt sig að það kemur að afar góðum notum. Við getum notað tækið fyrir alla aldurshópa. Elsti sjúklingurinn sem hefur haft not af tækinu er yfir sjötugt en sá yngsti einungis þriggja ára. Við festum sjúklingana í svonefnt upphengi, svonefnt Light Gait, en það var Samvinnufélag útgerðarmanna sem færði endurhæfingardeildinni það að gjöf. Það er ómetanlegt fyrir okkur að eiga góða að og Síldarvinnslan og Samvinnufélagið hafa reynst okkur afar vel.  Það skiptir miklu máli að við getum boðið sjúklingum á Austurlandi góða þjónustu og ekki þurfi að stefna þeim suður í jafn ríkum mæli og áður. Aðstaðan hjá okkur til að veita þjónustu verður sífellt betri og það er afar mikilvægt fyrir samfélagið hér eystra,“ segir Anna Þóra.

Deila: