Arctic Fish hyggst auka framleiðslu sína á norðanverðum Vestfjörðum

129
Deila:

Umhverfismati vegna fyrirhugaðs sjóeldis vestfirska fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish í Ísafjarðardjúpi, upp að 10.100 tonnum að hámarkslífmassa, er nú lokið. Vinna við umhverfismatið og undirbúning eldisins hefur staðið yfir í tæpan áratug. Þá er að ljúka auglýsingatíma viðbótareldisleyfa til Arctic Fish upp í 10.000 tonna lífmassahámark í Dýrafirði. Ef útgáfa eldisleyfa gengur eftir þá er útlit fyrir umtalsverða framleiðsluaukningu í eldi fyrirtækisins á norðanverðum Vestfjörðum.

Mælibátur Sjótækni við umhverfismælingar í Ísafjarðardjúpi jan 2021.

Arctic Fish stundar þegar fiskeldi á nokkrum stöðum á Vestfjörðum og eru höfuðstöðvar fyrirtækisins staðsettar í Ísafjarðarbæ. Fyrirtækið hefur lagt megináherslu á umhverfisvænt fiskeldi og hefur byggt upp seiðaeldisstöð í Tálknafirði sem er hýst í stærstu byggingum Vestfjarða. Eldisstöðin byggir á fullkomnu vatnsendurnýtingakerfi og er sú eina sinnar tegundar í heiminum þar sem kerfið nýtir jarðvarma og græna raforku. Áframeldið í sjó fer fram á eldisstöðvum félagsins í Tálknafirði, Patreksfirði, Önundarfirði og Dýrafirði.

Í vikunni hlaut Arctic Fish lífræna vottun Evrópusambandsins sem kennd er við græna laufblaðið.  Vottunin verður viðbót við aðra framleiðslu félagsins sem framleidd er í samræmi við ASC umhverfisstaðalinn. Stefnt er að fyrstu uppskeru úr Ísafjarðardjúpi árið 2023 og á næstu vikum er von á fyrstu lífrænu hrognunum frá Benchmark Iceland (Stofnfiski) sem síðar verða að seiðum sem fara í útsetningu sumarið 2022 og verða hluti af uppskerunni á þessum nýju svæðum.

Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish: „Þetta er stór áfangi fyrir Arctic Fish. Höfuðstöðvarnar eru hér á Ísafirði og því er ánægjulegt fyrir okkur að nú lítur út fyrir að við getum hafið eldisstarfsemi hér í Djúpinu. Vestfirðingar hafa lagt áherslu á umhverfisvæna matvælaframleiðslu og þessi ræktun verður það. Um leið hefur velgengni fiskeldisins hér orðið til þess að nýta aldagamla reynslu heimamanna af sjávarútvegi og tryggt að sú matvælaframleiðsla haldi áfram.“

 

Deila: