Loðnukvóti íslenskra skipa 69.834 tonn

20
Deila:

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun grein fyrir því að hann hefði í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar undirritað reglugerð um veiðar á loðnu. Eftir mælingar á loðnustofninum í síðustu viku veitti Hafrannsóknastofnun síðdegis í gær ráðgjöf um veiðar á allt að 127.300 tonnum af loðnu á vertíðinni 2020/2021.  Er það aukning um 66.300 frá fyrri ráðgjöf.

Í síðustu viku var ákveðið að freista þess að ná nýrri mælingu og til verkefnisins fengin sex uppsjávarskip ásamt báðum rannsóknaskipum Hafrannsóknastofnunar.  Um er að ræða umfangsmestu loðnuleit í seinni tíð. Lauk þeim mælingum sl. sunnudag og sýna niðurstöður að heldur meira magn loðnu sé á hafsvæðinu en mælst hafði í fyrri leiðöngrum.

Með reglugerðinni sem Kristján Þór undirritaði í morgun er íslenskum skipum veitt heimild til veiða á 69.834 tonnum. Ástæða þessa eru gildandi samningar við önnur ríki sem taka þarf tillit til áður en til úthlutunar kemur til íslenskra skipa. Annars vegar er samningur við Norðmenn vegna þorskveiða íslenskra skipa í Barentshafi og hins vegar tvíhliða samningur við Færeyjar.

Hafrannsóknastofnun mun ekki fara til mælinga að nýju að óbreyttu en mun fylgjast með fréttum af miðunum og bregðast við ef vísbendingar koma um nýjar loðnugöngur.

„Þessi ákvörðun er afrakstur umfangsmestu loðnuleitar seinni ári. Þetta er vissulega ekki mikið magn í sögulegu samhengi, en þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag enda útflutningsverðmæti upp á hátt í 20 milljarða. Öflugt samstarf stjórnvalda, sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar og fyrirtækja í sjávarútvegi við þessa leit hefur verið lykillinn að þessum árangri,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

 

Deila: